Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hefur hlotið tilnefninu til verðlauna á vegum samtakanna World Technology Network (WTN). Samtökin veita árlega verðlaun í mismunandi flokkum er tengjast tækni, í víðum skilningi þeirra tengsla. Birgitta er ásamt fjórum öðrum tilnefnd í flokknum Stefnumál (Policy).
Aðrir sem eru tilnefndir í sama flokki eru Frans páfi, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, höfundur bókarinnar Fjármagn á 21. öldinni, kínverski blaðamaðurinn og náttúruverndarsinninn Chai Jing og gervigreindarsérfræðingurinn Stuart Russell.
Verðlaunin verða veitt á árlegri ráðstefnu samtakanna dagana 18. til 20. nóvember næstkomandi í New York borg. Á heimasíðu WTN, þar sem meðal annars má sjá alla þá sem eru tilnefndir til verðlauna í ár, segir að tilgangur samtakanna sé að leiða saman leiðtoga í tæknigeiranum og helstu framsækna hugsuði á öðrum sviðum, allt frá bankamönnum og vísindamönnum til stjórnmálamanna.