Birna Anna Björnsdóttir hefur keypt 7,2 prósent hlut í Kjarnanum miðlum ehf. Hún er því komin í breiðan hóp hluthafa Kjarnans, sem hyggur á frekari uppbyggingu og vöxt á næstu misserum.
„Með þeim hröðu og miklu breytingum sem eru að eiga sér stað í fjölmiðlun skiptir máli að hlúa að sjálfstæðri og vandaðri blaðamennsku. Kjarninn hefur þegar sannað sig sem spennandi og öflugur miðill og ég hlakka til að taka þátt því að því móta framtíð hans,“ segir Birna Anna.
Birna Anna hefur mikla reynslu af ritstörfum og blaðamennsku. Starfaði meðal annars sem blaðamaður Morgunblaðsins á árunum 1998 til 2008, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi meðfram námi. Hún er með BA próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA próf í bókmennta- og menningarfræðum frá New York University (NYU). Hún er búsett í New York ásamt manni sínum og tveimur börnum.
Birna Anna hefur skrifað bækurnar Klisjukenndir (Mál og menning 2004) og Dís (Forlagið 2000). Þá skrifaði hún kvikmyndahandrit samnefndrar kvikmyndar, Dís, sem frumsýnd var árið 2004.
Lítilsháttar breytingar hafa orðið á hluthafahópnum frá því tilkynnt var um hlutafjáraukningu, nýja stjórn og ráðgjafaráð. Breytingarnar hafa verið tilkynntar til fjölmiðlanefndar líkt og lög gera ráð fyrir. Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson, sem eru í hópi stofnenda og starfsmanna Kjarnans, tóku þátt í hlutafjáraukningunni og eru nú stærstu einstöku hluthafar félagsins með 13,9 prósent hlut hvor. Stofnendur félagsins og starfsmenn eiga rúman meirihluta, eða tæplega 63 prósent hlutafjár.
Í stjórn Kjarnans eru Hjálmar Gíslason, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson og Guðrún Inga Ingólfsdóttir.
Eigendur Kjarnans eru eftirfarandi:
- Magnús Halldórsson, 13,90%
- Þórður Snær Júlíusson, 13,90%
- Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, 12,77%
- Hjalti Harðarson, 9,44%
- Gísli Jóhann Eysteinsson, 9,44%
- Ægir Þór Eysteinsson, 9,44%
- HG80 ehf. í eigu Hjálmars Gíslasonar, 7,55%
- Birna Anna Björnsdóttir, 7,20%
- Fagriskógur ehf., í eigu Stefáns Hrafnkelssonar, 5,80%
- Ágúst Ólafur Ágústsson, 4,64%
- Jónas Reynir Gunnarsson, 2,96%
- Birgir Þór Harðarson, 2,96%