Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti páskapredikun sína í Dómkirkjunni í dag. Í henni ræddi hún meðal annars um kjaradeilur á vinnumarkaði og efnahagsástandið á Íslandi og sagði að kannski væri betur fyrir okkur komið sem þjóð " ef boðskapur hins upprisna Jesú væri meira í hávegum hafður og meira mark væri tekið á honum."
Agnes sagði óttinn taki stundum stjórnina í lífi fólks. Það sé slæmt að láta hann stjórna sér en það geti verið erfitt að bægja honum frá þegar andstreymi mætir. "Næstu dagana eru boðuð verkföll hér á landi. Margir óttast að þau geti orðið langvinn og erfið. Fjárhagsáhyggjur þjá margan manninn sem og ótti er tengist framtíð og lífsafkomu. Það er óásættanlegt að í okkar fámenna þjóðfélagi skuli vera fjölskyldur sem ekki sjá fram á bjarta framtíð börnum sínum til handa. Það er óásættanlegt að unga fólkið hafi ekki jöfn tækifæri til náms og þroska. Kannski væri betur komið fyrir okkur sem þjóð ef boðskapur hins upprisna Jesú væri meira í hávegum hafður og meira mark væri tekið á honum."
Sóknarbörnum fækkað hratt undanfarin ár
Þjóðkirkjan sjálf hefur mætt töluverðu andstreymi undanfarin misseri. Kjarninn greindi frá því í liðinni viku að sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar hafi fækkað um átta þúsund á síðustu tíu árum, eða um 3,2 prósent. Þau eru nú 242.743 en voru 250.759 þúsund árið 2005. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um 35.523, en sú fjölgun hefur ekki skilað neinni aukningu á sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar.
Fækkun þeirra sem kjósa að vera í Þjóðkirkjunni hefur raunar verið mjög stöðug um nokkurt langt skeið. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í Þjóðkirkjuna. Um aldarmótin var það hlutfall komið niður í 89 prósent og í dag er það 73,8 prósent. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan Þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í byrjun þessa árs voru þeir 86.357 talsins. Þeim hefur því fjölgað um rúmlega 55 þúsund á 15 árum.
Mun færri börn skráð í kirkjuna og traust dalað
Innan við 60 prósent þeirra barna sem fæddust í fyrra voru skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu. Hlutfallið hefur lækkað verulega frá árinu 2005, þegar það var rúmlega 80 prósent. Á sama tímabili hefur börnum sem eru skráð með ótilgreinda trúfélags- eða lífsskoðunaraðild fjölgað mikið, eða úr tæpum sex prósentum barna sem fæddust árið 2005 í rúmlega 26 prósent barna sem fæddust árið 2014.
Traust til Þjóðkirkjunnar hefur einnig dalað mjög skarpt frá aldarmótum. Árið 1999 treystu 61 prósent landsmanna Þjóðkirkjunni samkvæmt könnun Þjóðarpúlsi Capacent. Traustið hrundi næstu árin og fór lægst í 28 prósent í febrúar 2012. Það hefur síðan aukist lítillega og í nýjasta Þjóðarpúlsinum sem mældi traust til stofnana, sem var framkvæmdur í febrúar 2015, mældist traustið 36 prósent. Það er 25 prósentustigum minna en það var fyrir 16 árum síðan.