Kirkjuþing samþykkti í dag tillögu frá Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, um að styðja frumvarp Pírata um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana, meðal annars það ákvæði í íslenskum hegningarlögum sem kveður á um bann við guðlasti.
„Biskup tekur undir þá skoðun Pírata að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda,“ segir í ályktun kirkjuþings.
Í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Þar kemur einnig fram að tjáningarfrelsið sé einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðis og frelsis.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, sagði í viðtali við Stöð 2 fyrir skemmstu að það sæmi ekki vestrænu lýðræðisríki að það sé bannað að gera grín að trúarbrögðum. Ráðamenn á Íslandi geti ekki fordæmt beitingu sambærilegra lagagreina í ófrjálsari löndum meðan þær sé einnig að finna í refsilöggjöf á Íslandi.