Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vill að Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra geri grein fyrir því hvers vegna hann hefur ekki svarað spurningum fjölmiðla um tengsl sín við fyrirtækið Orku Energy og forsvarsmenn þess í tæpt hálft ár, og hvernig það samræmist upplýsingalögum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrirspurn Bjarkeyjar til Illuga, sem var dreift á Alþingi í dag.
Bjarkey vill að ráðherrann greini frá því hvenær hann hafi síðast fengið laun, lán eða „aðra fjárhagslega fyrirgreiðslu“ frá fyrirtækinu eða forsvarsmönnum þess, og hversu háar upphæðir þar hafi verið um að ræða. Hún vill líka vita hvort hann hafi þegið boðsferðir á borð við laxveiðiferðir frá þeim meðan hann hefur verið ráðherra og hvort hann hafi þegið einhverjar aðrar gjafir frá Orku. Þá spyr Bjarkey hvort Illugi hafi „greitt götu fyrirtækisins eða forsvarsmanna þess með einhverjum hætti í ráðherratíð sinni.“
Líka spurður beint í þinginu
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, spurði Illuga líka út í málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Hún spurði hann fyrst um stöðu hans gagnvart frumvarpi sem hún hefur lagt fram og fjallar um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Svo spurði hún á hverra vegum Illugi hefði verið í Kína árið 2013, hver hefði greitt veiðileyfi í Vatnsdalsá árið 2013 og hver væru tengsl ráðherrans við Orku Energy.
Illugi svaraði því til að heimsóknin til Kína hefði verið vinnuheimsókn ráðherra, embættismanna, rektora þriggja háskóla og forstöðumanns Rannís. „Hitt er alveg hárrétt að á sama tíma voru í Peking fulltrúar frá fyrirtækinu Orku Energy, sem um hefur verið rætt hér, og einn fulltrúi frá fyrirtækinu Marel.“ Þá sagði hann að hann hefði í sínum fórum kvittun fyrir greiðslum sínum fyrir veiðiferð í Vatnsdalsá og kostnað við hana.
Hefur ekki íhugað stöðu sína
Illugi segist ekki hafa íhugað stöðu sína vegna Orku Energy-málsins, að því er fram kom í viðtali við hann á RÚV fyrr í dag. „Það þyrfti þá að vera hægt að segja að ég hefði með einhverjum hætti veitt þessu fyrirtæki óeðlilega fyrirgreiðslu, það hefur ekki verið með nokkum hætti sýnt fram á eða bent á.“
Illugi vildi fyrst ekki ræða málið við fréttastofu RÚV, vegna þess að hann hefur þegar farið í viðtal í Fréttablaðinu sem verður birt á morgun. Hann sagði við RÚV að þar ræddi hann ítarlega um málið og gæti rætt við aðra fjölmiðla í kjölfarið. Svo mánuðum skiptir hefur Illugi ekki viljað tala við fjölmiðla um málið þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir.
Illugi segist þó skilja umræðuna en segir jafnframt að það væri mjög undarlegt ef hann væri að íhuga stöðu sína, því þá hefðu aðrir ráðherrar sem hefðu átt samskonar samvinnu við fyrirtækið átt að gera slíkt hið sama. Fréttamaður RÚV benti þá á að hann sé fjárhagslega háður stjórnarformanni fyrirtæksins, og í því liggi munurinn. Illugi neitaði því að vera fjárhagslega háður þrátt fyrir að stjórnarformaður fyrirtækisins hafi keypt af honum íbúð og leigi Illuga hana til baka.