Bjarnfreður Ólafsson er kominn með lögmannsréttindi sín á nýjan leik en hann hann missti þau tímabundið þegar hann hlaut dóm í Hæstarétti, 13. mars í fyrra. Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, staðfesti þetta við Kjarnann í dag, og er nafn Bjarnfreðs komið aftur inn á lögmannalista félagsins sem aðgengilegur er á vefsíðu þess.
Bjarnfreður var dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá skilorðsbundna, og missti lögmannsréttindi sín í eitt ár, eins og áður sagði. Hann var dæmdur fyrir að hafa sent ranga tilkynningu til fyrirtækjaskrár í hinu svokallaða Exista-máli. Þá var tilkynnt um hlutafjáraukningu upp á 50 milljarða í lok árs 2008, en aðeins var greitt fyrir það um einn milljarður króna.
Lýður Guðmundsson fjárfestir, oft kenndur við Bakkavör, var einnig dæmdur í málinu, í átta mánaða fangelsi. Þar af voru fimm mánuðir skilorðsbundnir.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt Lýð til að greiða tveggja milljóna króna sekt. Bjarnfreður var hins vegar sýknaður af sínum þætti málsins í héraði.