Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að vinnumarkaðsmódelið á Íslandi sé gallað og að hruni komið. Ítrekuð verkföll og kröfur um leiðréttingu launa sýni þetta. Þetta kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, um stöðuna á vinnumarkaði og verkföll hjá hinu opinbera.
Árni Páll benti á að verkföll hefðu nú varað í um átta vikur hjá BHM og staðan í heilbrigðisgeiranum væri grafalvarleg. Heilbrigðisstéttir væru að gefast upp.
Bjarni sagðist taka undir að ástandið væri víða mjög alvarlegt. Laun hjá hinu opinbera hefðu hins vegar hækkað um sjö til átta prósent í fyrra á meðan verðbólgan hafi haldist um eitt prósent. „Kaupmáttur launa í opinbera geiranum, hann stórjókst á síðasta ári, en því miður virðist það ekki vera nóg.“ Menn komi að samningaborðinu og segist hafa dregist aftur úr öðrum stéttum síðasta áratuginn og þurfi að fá leiðréttingu á því.
„Mitt svar við þessu er: það er ekki hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Það geta ekki endalaust allir fengið leiðréttingar gagnvart einhverjum öðrum viðmiðunarhópum. Þetta er fyrir mig fyrst og fremst til vitnis um að vinnumarkaðsmódelið sem við erum að nota á Íslandi er gallað. Það er í raun og veru að hruni komið,“ sagði Bjarni. Hann sagði að Íslendingar þyrftu að færa sig nær norrænu vinnumarkaðsmódeli.
Bætti einni stétt upp gengisfellingu krónunnar
Árni Páll spurði þá Bjarna hvort hann hefði velt því fyrir sér að „hinn eilífi samanburður sem hann er að tala um er bein afleiðing þess að fólk er búið að upplifa gríðarlega kjaraskerðingu frá hruni og sú kjaraskerðing er tilkomin vegna gengisfalls íslensku krónunnar og hækkunar lána samhliða?“ Hann spurði hvort það gæti verið að þjóðin sé ekki reiðubúin að lifa við afleiðingarnar af íslensku krónunni.
Þá sagði Árni að Bjarni hefði bætt einni stétt gengisfellingu krónunnar fyrir áramót og sú stétt hafi verið læknar. „Það er ekki hægt að bæta einni stétt afleiðingar íslensku krónunnar. Það verður að axla ábyrgð af kjaraskerðingunni fyrir aðra hópa,“ sagði hann og bætti því við að aðrar stéttir gætu líka sótt sér vinnu í öðrum löndum.
Bjarni svaraði því til að það stæðist ekki skoðun að íslenska krónan væri sjálfstætt vandamál. „Við höfum haft lága verðbólgu og lækkandi vexti og lærdómurinn sem við eigum að draga núna er sá að ef við höldum áfram á þeirri braut en ætlum okkur ekki um of í einhverjum leiðréttingum og kjarabótum í gegnum taxtahækkanir eða nafnlaunahækkanir þá getum við notið enn lægri vaxta og viðvarandi lágrar verðbólgu,“ sagði hann. Það væri hins vegar eflaust spennandi „fyrir hina, sem vilja losna við íslensku krónuna, að hvetja til þess að laun verði hækkuð upp úr öllu valdi, svo fylgi verðbólga og háir vextir vegna þess og þegar upp er staðið þá munu menn stíga fram og segja sjáið, þetta var allt íslensku krónunni að kenna.“ Hann sagði það eina sem ógnaði íslensku efnahagslífi hvað varðaði verðbólgu og vexti væri staðan á vinnumarkaði.