Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir betri staða ríkissjóðs í kjölfar losunar á höftum muni skapa svigrúm fyrir áframhaldandi skattalækkanir. Nefnir Bjarni lækkun tryggingagjalds, lægri álögur á einstaklinga og afnám tolla sem dæmi um skatta og álögur sem gætu lækkað. Hins vegar þurfi að tímasetja alla lækkun skatta mjög vel. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Stærstu kröfuhafar slitabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa lagt fram tillögur til að mæta skilyrðum stjórnvalda fyrir því að þau geti fengið að ljúka nauðasamningum og fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að greiða út úr búunum. Framkvæmdahópur um losun hafta og stýrinefnd sem er yfir honum hafa sagt að tillögurnar mæti skilyrðunum og mælt með að slitabúin fái undanþágu á grundvelli þeirra. Bjarni hefur sagt að stöðugleikaframlag slitabúanna geti numið allt að 500 milljörðum króna.
Það á að nota í að greiða niður skuldir utan þess að áætlaðar tekjur vegna bankaskatts, sem munu þá ekki skila sér, verða teknar til hliðar og þeim ráðstafað úr ríkissjóði. Með þessu er talið að skuldir ríkissjóðs geti lækkað um allt að þriðjung og árlegur vaxtakostnaður dragist saman um tugi milljarða króna. Á árinu 2015 er reiknað með að íslenska ríkið greiði 77 milljarða króna í vexti af lánum.