Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokks hans, hafi stigið stórt skref með því að segja af sér embætti innanríkisráðherra vegna lekamálsins. Hann viðurkennir hins vegar að Hanna Birna hefði átt að segja af sér fyrr. „Það er auðvelt að segja það eftir á. Ég get ekki útilokað að þetta hafi skemmt fyrir flokknum en ég varð ekki var við áberandi breytingu á stuðningi.“ Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í Fréttablaðinu í dag.
Bjarna finnst að athyglin í lekamálinu hafi þó verið of mikil á Hönnu Birnu, sem hafi ekkert með lekann sjálfan að gera. Aðalatriðin, að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi brugðið fæti fyrir einstakling em leitaði skjóls í ráðuneytinu, hafi ekki verið nægilega í forgrunni í umræðunni. Sá starfsmaður er Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, sem hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir lekann í nóvember í fyrra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra.
Stjórnarflokkarnir hafa tekist harkalega á
Bjarni fer um víðan völl í viðtalinu við Fréttablaðið og ræðir meðal annars stjórnarsamstarfið. Þar segist hann ekki eiga í miklu sambandi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra utan vinnu en að samstarfið gangið ágætlega. Vissulega hafi flokkarnir tveir sem mynda ríkisstjórn þó tekist á. „Við höfum tekist harkalega á um hluti, það er hluti af starfinu. En kúnstin felst í því að vera mátulega ýtinn á eigin málstað en nægilega skilningsríkur fyrir málstað samstarfsflokksins.“
Bjarni ræðir lika ættartengsl sín, en hann er Engeyingur, og meint tengsl við eina umdeildustu valda- og viðskiptablokk á Íslandi, hinn svokallaða Kolkrabba. Bjarni segir í viðtalinu: "Ég er ekki Kolkrabbinn. Það er ekkert erfitt að vera ég, það er bara fínt. Engeyingar eru stór ætt og fáir í pólitík. Margir hafa náð langt, já. Er einhver viðskiptavaldablokk á bak við? Nei. En það er gaman að því þegar menn búa til frasa um fyrirbæri sem eru til sum hver tímabundið. Sumar valdablokkir sem skrifað var um á tíunda áratugnum eru gufaðar upp.“