Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, vill kjósa um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum á næsta ári. Hann vill að kosið verði um hvort að ákvæði sem lýsi auðlindir í náttúru Íslands þjóðareign rati þangað inn, um ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og takmarkað framsal valdheimilda til alþjóðastofnana. Þetta kemur fram í grein sem Bjarni ritar í Morgunblaðið í dag.
Á síðasta kjörtímabili lagði stjórnlagaráð, sem kosið var til af þjóðinni, fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Frumvarpið var lagt fram árið 2011. Kosið var um tillögur ráðsins haustið 2012 þar sem tveir af hverjum þremur sem tók þátt í kosningunum sagðist vilja að tillögur ráðsins yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í tillögunum var meðal annars að finna ákvæði um að auðlindir yrðu þjóðareign og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og Bjarni leggur nú til að kosið verði um.
Þar voru einnig tillögur um stórtækar breytingar á íslenska kosningakerfinu þar sem lagt var til að heimila aukið persónukjör og að atkvæði landsmanna myndu öll gilda jafn mikið, en mikið ósamræmi er í því vægi á milli landshluta í dag. Báðar tillögurnar voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Þær eru hins vegar ekki á lista yfir þær breytingar sem Bjarni leggur til að kosið verði um á næsta ári.
Vill auðlindaákvæði í stjórnarskrá
Í grein sinni segir Bjarni: "Í mínum huga er löngu ágreiningslaust að í stjórnarskrá skuli setja ákvæði sem lýsi auðlindir í náttúru Íslands þjóðareign sem beri að nýta á sjálfbæran hátt landsmönnum öllum til hagsbóta. Í skýrslu stjórnarskrárnefndar er lögð áhersla á að í þjóðareignarhugtakinu felist sú meginhugsun að nýting náttúruauðlinda sé í þágu þjóðarinnar allrar. Það sé hins vegar óhjákvæmilega háð pólitískri stefnumörkun hvernig þessu markmiði er náð á hverjum tíma.Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að stjórnarskrárnefnd telur brýnt að í stjórnarskrá sé kveðið á um að úthlutun heimilda til nýtingar auðlinda skapi ekki eignarrétt eða óafturkræf réttindi, svipað og gert er í núgildandi fiskveiðistjórnarlöggjöf.
Óraunhæft er, og raunar óæskilegt, að setja ýtarlegar reglur um nýtingu einstakra auðlinda í stjórnarskrá. Þar eiga frekar að koma fram meginmarkmið auðlindanýtingar, þ.e. sjálfbær nýting í þágu samfélagsins alls, og tryggingar fyrir því að lýðræðislega kjörin stjórnvöld á hverjum tíma geti unnið að þessum markmiðum.Samhliða auðlindaákvæði þarf einnig að huga að setningu almenns ákvæðis um vernd umhverfisins.
Stjórnarskrárákvæði um þessi tvö atriði, auðlindir og umhverfi, myndu að sjálfsögðu ekki tæma öll álitaefni á þessum vandmeðförnu sviðum eða fela í sér pólitíska töfralausn. Þau myndu hins vegar vísa veginn við nánari stefnumótun og vonandi fela í sér mikilvægt skref í átt til sáttar og stöðugleika um þá mikilvægu hagsmuni sem hér er um að tefla."
Þjóðaratkvæði og framsal valds
Bjarni segist telja að þróun síðustu ára sýni að mikil þörf sé á almennu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt ákvæði ætti að taka til samþykktra laga og jafnvel ákveðinna þingsályktana Alþingis sem fela í sér bindandi ákvörðun, einkum þingsályktana um fullgildingu milliríkjasamninga. "Eitt helsta álitaefnið hvað þetta varðar er hversu margar undirskriftir eigi að þurfa til. Ég tel að þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli undirskrifta eigi fyrst og fremst að þjóna aðhaldshlutverki gagnvart Alþingi og jafnframt vera einskonar öryggisventill lýðræðisins. Hér þarf því að finna leið til að tryggja slíkan rétt þegar sterk og ótvíræð krafa rís um slíka atkvæðagreiðslu án þess að fulltrúalýðræðinu sé fórnað eða þinginu gert erfitt um vik að bregðast við aðkallandi málum."
Bjarni bendir á að nánast allar vestrænar þjóðir hafa í stjórnarskrám sínum ákvæði sem heimila framsal valdheimilda ríkisins í afmörkuðum mæli í þágu friðar og alþjóðasamvinnu. "Skortur á slíku ákvæði hefur valdið nokkrum erfiðleikum fyrir þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu, einkum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið þegar álitamál hafa risið um heimild til framsals samkvæmt núgildandi rétti. Ástæða er til þess að taka fram að slík heimild í stjórnarskrá tengist spurningunni um umsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki með neinum hætti - aðild Íslands að ESB myndi ótvírætt þarfnast sérstakrar stjórnskipulegrar heimildar og aðlögunar. Ef gengið er út frá þessu er engin ástæða til að ætla að alvarlegur ágreiningur sé um stjórnarskrárákvæði um þetta efni þótt auðvitað eigi eftir að taka afstöðu til ákveðinna útfærsluatriða."
Kallar eftir þverpólitískri sátt
Undir lok greinar sinnar kallar Bjarni eftir því að pólitísk sátt myndist um að setja þessar breytingartillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum árið 2016. Það sé hægt vegna þess að í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt stjórnlagabreyting sem gerir breytingar á stjórnarskránni á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu mögulegar innan þessa kjörtímabils. "Ég tel að nú séu fyrir hendi allar forsendur til þess að bæta við stjórnarskrá lýðveldisins ákvæðum sem taka á umhverfis- og auðlindamálum, þjóðaratkvæðagreiðslu og takmörkuðu framsali valdheimilda, sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum á næsta ári.Til að svo megi verða verður að halda vel á undirbúningi málsins og rekstri þess á Alþingi á komandi hausti. Jafnframt er ljóst að grundvöllur þessa er gott samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu, en á vettvangi stjórnarskrármála á slíkt samstarf sér mörg fordæmi. Gangi þetta eftir yrði um að ræða eina allra mestu breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins frá upphafi, breytingu sem ég tel að væri vel til þess fallin að varða veginn fyrir frekari endurskoðun."