Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ekkert ríki í Evrópu muni sjá jafn miklar breytingar á ríkisfjármálum sínum á jafn skömmum tíma og Íslendingar eru að fara að upplifa samhliða afnámi hafta. Hann segir það ekki til umræðu að afturkalla stuðning við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum en að það sé dapurlegt að lesa um þá óvild sem margir sýni í garð sjávarútvegarins í opinberri umræðu. Bjarni útilokar ekki samstarf með Pírötum í framtíðinni og býst við því að Hanna Birna Kristjánsdóttir bjóði sig aftur fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Bjarna í Morgunblaðinu í dag.
Stuðningur mögulega ekki framlengdur
Bjarni ræðir þar þátttöku Íslendinga í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi og það innfluttningsbann sem Rússar hafa lagt á íslensk matvæli. Hann segist ekki hafa lagt til að Íslendingar afturkalli viðskiptaþvinganirnar og það sé ekki til umræðu í ríkisstjórn að gera það. Bjarni segir hins vegar að aðgerðirnar seú tímabundnar og muni einhvern tímann renna út. Þá standi menn frammi fyrir því hvort framlengja eigi þátttöku Íslands.
Það sé þó grundvallaratriði að sú rödd heyrist sem víðast að Íslendingar standi með lýðræðisþjóðum og því að alþjóðalög séu virt. „Hins vegar þurfum við í ljósi þess sem upp er komið að halda til haga afleiðingunum af innflutningsbanni Rússa fyrir íslenska hagsmuni, koma því á framfæri við bandamenn okkar hverjar afleiðingarnar eru og leita leiða til þess að takmarka áhrifin á efnahagslífið. Það er frumskylda stjórnvalda hverju sinni.“
Hann segist hafa verið hugsi yfir því hvort það væri sjálfsagt og eðlilegt að Íslands, sem er ekki aðili að Evrópusambandinu og falli þar með ekki undir sameiginlega utanríkismálastefnu þess, sé að taka undir ályktanir, ákvarðanir og aðgerðis sambandsins án þess að hafa átt neina aðkomu að þeim ákvörðunum.
Bjarni segir þær raddir sem hafi haldið því fram að söguleg sinnaskipti hafi orðið á utanríkisstefnu Íslands og Sjálfstæðisflokksins á undanförnum dögum fara með innantóm orð. „ En maður les líka á milli línanna hjá sumum að þar skín í gegn óvildin í garð sjávarútvegsins og þeirra fyrirtækja sem stunda útgerð á Íslandi. Maður verður hálfdapur við að lesa slík skrif vegna þess að þau eru til vitnis um að menn eru að tapa tengslum við ræturnar. Þegar stutt er í að það hlakki í sumum yfir því að þjóðin gæti orðið af tugmilljarða útflutningstekjum. Að ná höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið er orðið sjálfstætt markmið hjá þessu fólki. En fiskveiðar og arðbært stjórnkerfi er það sem hefur komið undir okkur fótunum, með þessu höfum við byggt upp það samfélag sem við búum í. Það er ótrúlega dapurlegt að lesa þetta.“
Stór og mikil skuldahreingerning
Samhliða afnámi hafta og því að ríkissjóður sé rekinn með afgangi segir Bjarni að upp sé að renna sá tími sem Ísland geti farið í gríðarlega stóra og mikla hreingerningu á skuldahlið ríkisins.
Auk þess sé möguleiki á að selja eignir, t.d. Landsbankann, til að greiða enn frekar upp skuldir. „Það er merkileg staða að vera í að hafa fyrir stuttu þurft að leita á náðir bandamanna okkar til þess að sækja erlend lán en vera nú tiltölulega skömmu síðarkomin í þá stöðu að geta gert upp öll lán sem tengdust áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og standa líka frammi fyrir þeim vanda hvað varðar íslensku krónulánin að við getum valdið þensluáhrifum með því að borga of mikið af þeim upp. Við erum í raun og veru með of mikla endurgreiðslugetu hvað snertir krónuhlutann af skuldunum. Það þarf hreinlega að stíga varlega til jarðar í því hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum sem verða til skiptanna. Þetta er algjör umpólun á ríkisfjármálunum á örfáum árum. Ég tel að ekkert ríki í Evrópu muni sjá jafn miklar breytingar á ríkisfjármálum á jafn skömmum tíma og við Íslendingar erum að fara að upplifa.“
Bjarni segir að skuldahlutföllin muni halda áfram að lækka með næstu fjárlögum, þótt að ekki verði gert ráð fyrir stöðugleikaskattinum í þeim. Þar verði líka ágætis afgangur, og talsvert meiri en lagt var upp með í fyrra.
„Að öðru leyti er hægt að segja um ríkisfjármálin núna að það er ekki einfalt að frysta myndina vegna þess að þetta er allt á svo mikilli hreyfingu. Ég nefni sem dæmi að í vinnunni við fjárlagafrumvarpið stóðum við frammi fyrir því að ákveða hvort við ætluðum að gera ráð fyrir stöðugleikaskattinum á árinu 2016 eða ekki. Ef við hefðum gert ráð fyrir honum tekjumegin hefði hann verið upp á mörg hundruð milljarða. Við ákváðum að gera það ekki enda gerum við allt eins ráð fyrir því að í stað stöðugleikaskatts komi stöðugleikaframlag á þessu ári, en það skýrist síðar á þessu ári.Við höfum að takmörkuðu leyti við gerð fjárlaganna að þessu sinni tekið með í reikninginn allan ávinninginn af því sem kann að falla til við framkvæmd útboðsins í haust og við uppgjör gömlu bankanna. Við eigum það þá inni ef allt fer að óskum.“
Ósáttur við stöðuna í könnunum
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að mælast hátt í skoðanakönnunum um þessar mundir. Fylgi hans mælist þar oftast svipað og það var í kosningunum 2009, þegar hann hlaut sína verstu kosninganiðurstöðu í sögunni. Bjarni segist ósáttur við stöðuna. „Í þessari stöðu er ekkert annað að gera fyrir okkur en að fylgja fast eftir okkar skýru stefnumálum, ná árangri og leggja þann árangur fyrir kjósendur í næstu kosningum. En við þurfum líka að draga upp spennandi og skýra framtíðarsýn um að á Íslandi verði eftirsóknarvert og áhugavert að búa í framtíðinni. Ungt fólk á Íslandi eins og annars staðar lítur nánast á alla Evrópu eða jafnvel allan heiminn sem heimili sitt. Kappsmál okkar verður að vera að gera landið allt, höfuðborgina og byggðirnar um landið allt, að spennandi valkosti fyrir framtíðarkynslóðir.“
Hann sér ótæmandi tækifæri til að laða fleiri kjósendur að Sjálfstæðisflokknum ef flokkurinn verður trúr sjálfum sér og fylgir eftir grunngildum sínum í stað þess að elta skoðanakannanir. Hann bindur vonir við að landsfundir flokksins í október verði tækifærið til þess að skerpa á stefnunni og láta rödd Sjálfstæðisflokksins heyrast.,,Líklega hefur sjaldan verið meiri þörf fyrir okkur til að koma saman og skerpa á þeim áherslumálum sem við teljum að eigi erindi við fólk. Þá er ég að vísa til þess að það hefur ekki gerst oft í sögu Sjálfstæðisflokksins að hann mælist á þessum slóðum í svona langan tíma. Við þurfum að taka því mjög alvarlega og líta inn á við.“
Að mati Bjarna er sú mikla fylgisaukning sem Píratar eru að mælast með keimlík því sem áður hefur gerst þegar nýir flokkar koma fram. Hann segist ekki útiloka samstarf við Pírata frekar en nokkra aðra.
Býst við Hönnu Birnu áfram
Bjarni mun áfram gefa kost á sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum í október og gerir ráð fyrir því að Hann Birna Kristjánsdóttir, sem sagði af sér embætti innanríkisráðherra í lok síðasta árs vegna lekamálsins, muni hefa kost á sér áfram sem varaformaður. Hún hafi talað með þeim hætti. „Það hefur ekkert breyst hvað samstarf okkar Hönnu Birnu snertir í forystunni. Ég hef starfað með þremur varaformönnum og þeir hafa hver fyrir sig viljað hafa sinn háttinn á þessu en samstarfið hefur alltaf gengið vel. Það hefur ekkert breyst í samskiptum okkar Hönnu hvað þetta snertir.“