Það væri gríðarlega kostnaðarsöm aðferð að hækka lífeyrisgreiðslur til jafns við launahækkanir, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna um stöðu aldraðra, öryrkja og atvinnulausra í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi fyrr í dag.
„Hvernig hyggst ríkisstjórnin tryggja að aldraðir njóti ávinnings með sama hætti og nú er verið að semja um á almennum vinnumarkaði? Mun ríkisstjórnin tryggja að aldraðir muni fara upp í 300 þús. kr. á samningstímabilinu? Hvernig verður með örorkulífeyrisþega, mun ríkisstjórnin tryggja jafnstöðu þeirra að þessu leyti? Munu atvinnuleysisbætur hækka líka með sama hætti? Hvert verður með öðrum orðum framlag ríkisstjórnarinnar til þess að styðja við þá sem eru á neðri hluta tekjustigans í þessum aðgerðum öllum?“ spurði Árni Páll Bjarna.
Bjarni sagði að verið væri að lækka lægsta skattþrepið og tryggja að ávinningur af breytingum á skattkerfinu nái til allra. „Varðandi bætur þá vísa ég til þess að við höfum lögbundið ákveðið fyrirkomulag um það hvernig þær eiga að taka breytingum í samræmi við ýmist verðlags- eða launabreytingar í þjóðfélaginu. Það er þá næsta verkefni að fara yfir útfærsluna á því,“ sagði Bjarni.
Árni Páll svaraði að vissulega væri ákveðið fyrirkomulag um hvernig bætur hækki, en að við svo miklar hækkanir lægstu launa eins og nú væri samið um þyrfti sérstaka ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að láta það endurspeglast í kjörum lífeyrisþega.
Hann spurði Bjarna einnig um það hvers vegna ekki væri gripið til þess að hafa persónuafslátt breytilegan, og lækkandi með hækkandi tekjum. „Sú aðgerð mundi nýtast mjög vel lágtekjufólki og mun nýtast lífeyrisþegum með algjörlega fordæmalausum hætti.
„Það er að sjálfsögðu mikið félagslegt tillit byggt inn í kerfið í dag með persónuafslættinum og því sem við stefnum á með þessum breytingum að vera með tveggja þrepa kerfi. Skattbyrðin er langminnst neðst og hún fer hækkandi eftir því sem launin hækka og heldur áfram að hækka þótt launin séu komin upp í ofurlaun,“ svaraði Bjarni.
Hann sagði að fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki litið svo á að bótaflokkar jafngiltu launaflokkum, það væri þá breyting sem Árni Páll væri að boða. „Bætur taka breytingum samkvæmt lögbundnu fyrirkomulagi og ef það stendur til að gera frekari breytingar en við höfum lögbundið þá er það alveg rétt, þá þarf að taka sjálfstæða sérstaka ákvörðun um það. En geta okkar til þess að gera mun betur eins og að fara með lífeyrisgreiðslur upp í 300 þús. kr. er að sjálfsögðu takmörkuð af stöðu ríkisfjármálanna hverju sinni. Það væri gríðarlega kostnaðarsöm aðferð sem háttvirtur þingmaður er að boða hér.“
Árni Páll gerði þessa umræðu þeirra að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í dag, þar sem hann sagði að Bjarni hefði í raun verið að boða að öryrkjar, aldraðir og atvinnulausir yrðu látnir sitja eftir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Öryrkjar, aldraðir og atvinnulausir verða látnir sitja eftir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á vinnumarkaði. Þetta stað...Posted by Árni Páll on Friday, May 29, 2015