Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, hefur farið í tólf utanlandsferðir í embættiserindum á kjörtímabilinu. Þær hafa kostað ríkið tæpar 12 milljónir króna og hann hefur verið í burtu í 39 daga.
Þetta kemur fram í svari Bjarna við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um utanlandsferðir ráðherra. Nú hafa allir ráðherrar nema Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra svarað fyrirspurnum Katrínar.
Dýrasta ferðin var ferð sem Bjarni fór annars vegar á haustfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Washington og hins vegar á ECOFIN-fund fjármálaráðherra EFTA-ríkjanna í Lúxemborg. Hún kostaði tæpar þrjár milljónir króna.
Tvær ódýrustu ferðirnar voru báðar til Bretlands, en þær kostuðu í kringum 200 þúsund krónur hvor. Í einni ferðinni var Bjarni á fundi í London „vegna lánamála“ og í hinni fundaði hann með fulltrúum breskra stjórnvalda í Manchester og London.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurninni í gær. Hann hefur farið í fimm ferðir erlendis á kjörtímabilinu og þær hafa kostað rétt rúmar fjórar milljónir króna.