Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir stýrivexti á Íslandi ekki geta verið of háa í samanburði við önnur lönd, eigi að koma í veg fyrir óeðlilega mikið innflæði fjármagns. Vaxtamunur við önnur lönd er er eitt þeirra atriða sem Seðlabankinn þurfi að líta til við ákvörðun stýrivaxta, segir Bjarni í samtali við fréttastofu Bloomberg.
Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður tilkynnt á miðvikudaginn. Greiningaraðilar spá hækkun vaxta um 0,5 prósentustig, í takt við það sem nefndin sjálf hefur boðað á síðustu vaxtaákvörðunarfundum.
Í frétt Bloomberg eru rifjuð upp gríðarleg vaxtamunaviðskipti á Íslandi fyrir hrun, þar sem erlendir aðilar fjárfestu á Íslandi vegna þess að vextir hérlendis voru mun hærri en í flestum öðrum ríkjum. Fjármagnið var kvikt og því erfiðara að eiga við fjármagnsflæðið en við langtímafjárfestingar.
Bjarni segir að vaxtamunaviðskiptin sé einn lærdóma hrunsins og stjórnvöld kanni nú hvaða möguleikar séu í stöðunni til að halda stýrivöxtum lágum. „Það þarf samkomulag milli stjórnvalda og leiðtoga vinnumarkaðarins um mikilvægi þess að halda vaxtastiginu lágu,“ segi Bjarni við Bloomberg. Hann bendir á að Ísland sé betur undirbúið í dag en fyrir hrun fyrir slík vaxtamunaviðskipti, og það ójafnvægi sem slík viðskipti skapa á gjaldeyrisflæði, vegna þess að gjaldeyrisforði Seðlabankans hafi stækkað verulega. Stærð hans í síðasta mánuði var um 620 milljarðar króna.
„Á þessari stundu eru vaxtamunaviðskipti ekki sérstakt áhyggjuefni. En við verðum að læra af reynslunni,“ segir Bjarni.