Ríkiskaup, fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, óska eftir tilboðum í kaup á ítarlegri þjóðhagslegri kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum raforkusæstrengs á íslenskt samfélag. Frá útboðinu er greint á vefsíðu Ríkiskaupa.
Í greiningunni skal draga saman þann þjóðahagslega ábata og kostnað sem verður til vegna verkefnisins, og setja upp sviðsmyndir af þróun raforkumála á Íslandi með og án sæstrengs og bera þær saman.
Dæmi um atriði sem taka skal tillit til við greiningu á áhrifum með og án sæstrengs eru; verðmætasköpun af raforkuvinnslu, áhrif á nýtingu orkuauðlinda, raforkuöryggi allra notenda á Íslandi, nýting raforkuflutningskerfis, áhættudreifing í raforkusölu, samkeppnisstaða innlends atvinnulífs, áhrif á fjárhag heimila og umhverfisleg áhrif.
Í morgun var blásið til kynningarfundar til að kynna útboðið áhugasömum, en hægt er að nálgast útboðsgögn vegna verkefnisins á vefsíðu Ríkiskaupa.
Útboðið er liður í hagkvæmnisathugun íslenskra stjórnvalda á lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu, sem Kjarninn sagði frá í október.
Þverpólitískur ráðgjafahópur um raforkustreng til til Evrópu, sem skipaður var í júní 2012 af Katrínu Júlíusdóttur þáverandi iðnaðarráðherra, var falið að kanna hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu. Í niðurstöðum og tilögum hópsins, sem kynntar voru í lok júní í fyrra, var hópurinn samdóma um að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins. Hópurinn tók því ekki afstöðu til framkvæmdarinnar, en lagði til að ráðist yrði í frekari rannsóknir á arðsemi strengs, sem og umhverfisáhrifum og hafnar yrðu viðræður við Breta um málið.