Björgunarsveitir eru nú að störfum víða á Suður- og Suðvesturlandi. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Landsbjargar. Þar segir að í kringum hádegið hafi fyrstu beiðnirnar um aðstoð vegna óveðursins borist, í Vestmannaeyjum og Grindavík. Síðan þá hafa björgunarsveitir á Suðurnesjum, Hellu, Árborg, Vogum og höfuðborgarsvæðinu verið kallaðar út.
Verkefni björgunarsveitanna eru af ýmsum t0ga, meðal annars vegna lausra þakplatna og klæðninga, fjúkandi girðinga og sorptunna, og þá hafa gluggar brotnað. Þá hafa björgunarsveitarmenn þurft að sinna útköllum þar sem fjúkandi trampólín koma við sögu, þrátt fyrir fjölda viðvaranna um að fólk hugi sérstaklega að því að festa þau niður.
Blessunarlega hafa engin stór atvik komið upp, að því er fram kemur í frétt Landsbjargar.
Flestar aðstoðarbeiðnirnar hafa komið á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hátt í 60 björgunarsveitarmenn eru að störfum, og á Suðurnesjum þar sem 30 björgunarsveitarmenn sinna hjálparbeiðnum.
Þá kemur fram í frétt hjá mbl.is að töluverð röskun hafi orðið á millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli í dag vegna veðursins. En nú þegar hefur flugum Icelandair til og frá London, Ósló og Stokkhólmi verið aflýst, sem og leiguflugi flugfélagsins til Vínarborgar.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, eru um fimmtán hundruð flugfarþegar í vandræðum vegna þessa, bæði hér á landi og erlendis. Þá hafa sömuleiðis orðið seinkanir á fjölda fluga hjá Icelandair.
WOW air hefur sömuleiðis fellt niður flug sem átti að fara til Lundúna og Berlínar í dag, en vél félagsins frá Kaupmannahöfn gat ekki lent í Keflavík og var því snúið til Akureyrar þar sem hún lenti heilu og höldnu í dag.
Þá hefur öllu innanlandsflugi sömuleiðis verið aflýst.