Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps, kveðst reiður og sorgmæddur vegna yfirlýsingar Björgvins G. Sigurðssonar fyrrverandi sveitarstjóra hreppsins, þar sem Björgvin vísar á bug öllum ásökunum um fjárdrátt í störfum sínum fyrir sveitarfélagið. Hann segir að Björgvin hafi notað greiðslukort sveitarfélagsins í fjölmörg skipti í sína eigin þágu.
„Hann lítur ekki á þetta sem fjárdrátt, að hafa tekið fé úr sveitasjóði hreppsins og fært yfir á sinn reikning, og notað debetkort sveitarfélagsins í fjórtán skipti í eigin þágu þar sem hann keypti meðal annars myndavél sem engin hjá sveitarfélaginu hefur séð. Það getur vel verið að menn líti ekki á þetta sem fjárdrátt að misfara svona með opinbert fé, en þetta er sveitarsjóður en ekki einkafyrirtæki,“ segir oddviti Ásahrepps í samtali við Kjarnann.
Ljóst er að brottvikning Björgvins hefur ekki átt sér langan aðdraganda, því hann ritaði fundargerð á síðasta fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 13. janúar síðastliðinn. „Ég fékk vitneskju um þetta daginn eftir, og fór þá ofan í öll gögn. Á fimmtudaginn átti ég svo fund með Björgvini um morguninn og svo aftur með hreppsnefndinni ásamt Björgvini seinnipartinn. Svo á neyðarfundi hjá hreppsnefndinni í kjölfarið var ákveðið að víkja Björgvini frá störfum án uppsagnarfrests, sem hann samþykkti. Þá var ég líka með lista yfir þau atriði sem hann tók ófrjálsri hendi.“ Samkvæmt heimildum Kjarnans eru sveitarstjórnarmenn Ásahrepps slegnir yfir málinu, en einn þeirra sagði í samtali við Kjarnann: „Það átti engin von á þessu.“
Keypti sér bensín og matvöru með debetkorti sveitarfélagsins
Egill segir að Björgvin hafi dregið sér 400 til 500 þúsund krónur. Auk 250 þúsund króna millifærslunnar hafi Björgvin notað debetkort sveitarfélagsins til að kaupa sér meðal annars bensín og matvöru. „Það getur vel verið að menn geti gert lítið úr upphæðinni og sagt að þetta sé smá yfirsjón. En mér er alveg sama, ef menn misfara með tíu þúsund krónur þá er þeim ekki treystandi fyrir hundrað þúsund krónum. Ég bara get ekki en verið með annað en stíf og ábyrg prinsipp í tengslum við almannafé,“ segir Egill.
Oddviti Ásahrepps útilokar ekki að málið verði kært til lögreglu, og á hreinlega von á að það verði gert. „Ég átti von á því að Björgvin myndi bara endurgreiða það sem hann tók, og þannig myndi málið leysast. Kannski er bara einfaldast og hreinlegast að kæra þetta bara til lögreglu, þar sem málið færi til rannsóknar. Kannski eigum við bara að gera það, en sem betur fer hef ég ekki lent í því áður að menn séu að draga sér fé.“