Björk Guðmundsdóttir er meðal 100 áhrifamestu einstaklinga heims að mati tímaritsins TIME, sem tekur saman listann árlega.
Björk er í flokki íkona (e.icons), en í sama flokki eru meðal annarra Frans páfi, Taylor Swift söngkona, Haruki Murakami rithöfundur, Ruth Bader Ginsburg fyrrverandi hæstaréttardómari, baráttukonan Malala Yousafzai og hagfræðingurinn Thomas Piketty.
Það er listakonan Marina Abramovic sem skrifar um Björk fyrir blaðið. „Raunverulegu töfrarnir við Björk - hún kennir okkur að hafa hugrekkið til að vera við sjálf,“ segir í niðurlagi greinarinnar um söngkonuna.
Pútín áhrifamestur að mati lesenda
Fyrr í vikunni var greint frá úrslitum kosningar meðal lesenda TIME á áhrifamesta fólki. Vladimír Pútín Rússlandsforseti sigraði í þeirri kosningu, með 6,95 prósent atkvæða. Á eftir honum kom Suður-Kóreski rapparinn CL, og svo poppstjörnurnar Lady Gaga, Rihanna og Taylor Swift. Pútín er einnig á listanum sem ritstjórn blaðsins valdi, en listann í heild sinni má skoða hér.
Fimm einstaklingar prýða hver sína forsíðu tímaritsins. Fyrrnefnd Ruth Bader Ginsburg er á einni forsíðunni, tónlistarmaðurinn Kayne West á annarri og leikarinn Bradley Cooper á þeirri þriðju. Ballettdansarinn Misty Copeland er á þeirri fjórðu og blaðamaðurinn Jorge Ramos prýðir þá fimmtu.