Ný stjórn DV ehf., sem á og rekur DV og DV.is, var kjörin á hluthafafundi sem haldinn var á skrifstofu miðilsins í dag. Björn Ingi Hrafnsson tók þá við sem stjórnarformaður félagsins. Auk hans voru Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri Vefpressunnar, og lögmaðurinn Sigurvin Ólafsson kjörnir í þriggja manna stjórn. Varamaður í stjórn verður Jakob Hrafnsson, bróðir Björns Inga.
Reynir Traustason, fyrrum ritstjóri DV, og Jón Trausti Reynisson, fyrrum framkvæmdastjóri DV, mættu báðir á fundinn, en þeir eru enn á meðal hluthafa í félaginu. Auk þeirra mætti fráfarandi stjórn.
Keypti um 70 prósent í DV
Pressan ehf., móðurfélag Vefpressunnar og vefmiðlanna Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt, keypti um 70 prósent hlut í DV ehf. í nóvember. Í kjölfarið var tilkynnt að Vefpressan og DV myndu sameinast og að Björn Ingi Hrafnsson yrði útgefandi allra miðla hins sameinaða fyrirtækis. Kaupin voru bundin samþykki Samkeppniseftirlitsins sem veitti Vefpressunni undanþáguheimild fyrir kaupunum í síðustu viku. Eftir að sú heimild var veitt gátu félögin byrjað að samþætta verklag og þjónustu, meðal annars auglýsingasölu.
Björn Ingi Hrafnsson verður útgefandi og stjórnarformaður hins sameiginlega félags.
Undanþáguheimildin sem um ræðir varðar bann við samruna fyrirtækja á meðan hann er til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Auk þess var sett hefðbundið skilyrði við undanþáguheimildina, að ekki sé gripið til neinna aðgera sem gera það ómögulegt að láta samruna fyrirtækja ganga til baka, enda athugun Samkeppniseftirlitsins ekki lokið.
Ekki upplýst um kaupverð né fjármögnun
Björn Ingi hefur ekki viljað upplýsa um hvert kaupverð hlutsins í DV var né hvernig kaupin voru fjármögnuð. Í svari við fyrirspurn Kjarnans í nóvember sagði hann: „Kaupverðið er trúnaðarmál. Og sömuleiðis hvernig þau eru fjármögnuð, en þetta er samvinnuverkefni með þeim sem áttu blaðið.“
Vefpressan keypti hlutinn af hópi sem leiddur var af Þorsteini Guðnasyni, fyrrum stjórnarformanni DV.