Pressan ehf., móðurfélag Vefpressunnar og vefmiðlanna Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt, hefur náð samkomulagi við eigendur meirihluta hlutafjár í útgáfufélaginu DV ehf. um kaup á ráðandi hlut í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Björn Ingi Hrafnsson, eigandi Pressunnar, sendi fjölmiðlum nú rétt í þessu. Þar kemur jafnframt fram að með kaupunum sé útgáfu DV og dv.is tryggð til framtíðar og DV verið áfram rekið sem sjálfstæður og óháður fjölmiðill.
Með kaupunum er Pressan ehf. orðin eigandi ríflega tveggja þriðju hlutafjár í DV ehf. og hafa viðskiptin verið tilkynnt, lögum samkvæmt, til Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar. Samruninn kemur ekki til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaupin.
Núverandi stjórnarformaður DV Þorsteinn Guðnason mun áfram eiga sæti í stjórn félagsins og Steinn Kári Ragnarsson verður framkvæmdastjóri. Þá mun Hallgrímur Thorsteinsson, nýráðinn ritstjóri DV, gegna stöðunni áfram.
Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Pressunnar og Vefpressunnar, verður útgefandi DV og stjórnarformaður félagsins. Í áðurnefndri tilkynningu segir enn fremur: „Þegar samþykki Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir verður nánari grein gerð fyrir margvíslegum áformum til að treysta rekstur blaðsins og sækja fram með nýstárlegum hætti til framtíðar. Jafnframt verður gerð grein fyrir eignarhaldi eftir þessar breytingar í samræmi við lög um Fjölmiðlanefnd.“