Björn Jón Bragason hefur verið ráðinn nýr ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs. Þá hefur Sigurður Ingólfsson verið ráðinn ritstjóri Austurlands vikublaðs, en bæði blöðin eru í eigu Pressunnar ehf. sem meðal annars gefur út DV, dv.is, pressan.is og eyjan.is. Frá þessu er greint í frétt á síðastnefnda vefnum.
Vefpressan, sem er stýrt af Birni Inga Hrafnssyni, keypti útgáfuna Fótspor, sem gefur út ýmis vikublöð víðsvegar um landið, í júlí síðastliðnum. Samningum við ritstjóra blaðanna, sem voru verktakar, var rift í kjölfarið. Ingimar Karl Helgason ritstýrði áður Reykjavík vikublaði.
Í frétt Eyjunnar segir að Björn Jón hafi unnið margáttuð fræðistörf á umliðnum árum. "Eftir hann liggja tvær bækur og fjöldi tímarits- og blaðagreina. Þá hefur hann einnig stundað verslunarstörf og starfað fyrir Samtök kaupmanna við Laugaveginn og Félag hópferðaleyfishafa."
Björn Jón hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og bauð sig meðal annars fram til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna árið 2011, en náði ekki kjöri. Björn Jón bauð sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur 2014 en var ekki í tíu efstu sætunum á lista flokksins.
Bækurnar sem Björn Jón hefur skrifað eru Hafskip í skotlínu, sem var afrakstur tveggja ára rannsóknarvinnu um gjaldþrotamál Hafskips hf. og sakamálarannsókn í kjölfar þess. Síðari bókin heitir Bylting – og hvað svo? og kom út í ár. Þar er meðal annars fjallað um það sem hann kallar einkavæðingu nýju ríkisbankanna haustið 2009 á gagnrýnin hátt.
Í frétt Eyjunnar segir að Dr. Sigurður Ingólfsson, nýr ritstjóri Austurlands vikublaðs, hafi víðtæka reynslu af fjölmiðlum. Hann hefur ritstýrt Austurglugganum, verið fréttaritari og tökumaður fyrir Stöð 2 á Austurlandi og sinnt þáttagerð fyrir RÚV.