Blaðamennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, sem starfa báðir á DV og hafa skrifað mikið um lekamálið svokallaða, segja að þeir hafi „lýst yfir einlægum vilja" til að mæta Þóreyju Vilhjálmsdóttur, fyrrum aðstoðarmanni innanríkisráðherra, í dómsal þrátt fyrir að dómsátt hafi náðst í málinu. Þórey stefndi þeim fyrir meiðyrði eftir að hún var ranglega sögð vera sá starfsmaður sem lekið hefði gögnum um hælisleitandann Tony Omos til fjölmiðla á forsíðu DV í sumar. Þórey krafðist hámarksrefsingar, sem í fólst fangelsisvist, og fébóta.
Tilkynnt var um sátt í málinu fyrr í dag þar sem þeir greiða Þóreyju 330 þúsund krónur í miskabætur.
Þórey Vilhjálmsdóttir.
Þeir Jóhann Páll og Jón Bjarki segja hins vegar að eigendur DV hafi viljað leita sátta og þeir uni því. Í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér segir að þeir kæri sig ekki „um að sitja uppi með háa reikninga, hvað þá að betla fé af vinum og vandamönnum til að geta greitt þá. Við erum ekki á þingfararkaupi en vinnum við að flytja fréttir, meðal annars um það sem ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra vilja að leynt fari.
Á heilu ári virðist það aldrei hafa hvarflað að stuðningsmönnum innanríkisráðherra að skammast sín. Við skömmumst okkar fyrir þau mistök sem við gerðum í sumar. En á heildina litið erum við stoltir af okkar hlut í að fletta ofan af valdníðslu og mannréttindabrotum. Með dómssátt þessari kaupum við okkur frið til að skrifa áfram um hver þau öfl sem ljúga að almenningi og níðast á umkomulausu fólki“.
Miklar sviptingar hafa verið í eigendahópi DV undanfarin misseri. Reynir Traustason, fyrrum ritstjóri miðilsins, missti yfirráð yfir honum í haust og var rekinn úr starfi í kjölfarið. Nýlega var tilkynnt að Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi fjölmiðlafyrirtækisins Vefpressunnar, hefði keypt 70 prósent hlut í DV og að hann muni verða útgefandi miðilsins ef Samkeppniseftirlitið blessar kaupin.
Þórey hefur látið af störfum sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra en Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér því ráðherraembætti í síðasta mánuði í kjölfar þess að hinn aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, játaði að hafa lekið gögnunum og var í kjölfarið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Yfirlýsingu Jóhanns Páls og Jóns Bjarka má lesa í heild sinni hér að neðan.
Yfirlýsing vegna dómssáttar
5. desember 2014
Dómsátt hefur náðst í máli Þóreyjar Vilhjálmsdóttur gegn okkur, en málshöfðunin varðaði frétt sem birtist í DV þann 20. júní síðastliðinn. Þar var því ranglega haldið fram að Þórey væri sá aðili sem kallaður var starfsmaður B í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fréttin var leiðrétt samdægurs, yfirlýsing send á alla fjölmiðla og Þórey beðin afsökunar. Í kjölfarið höfðaði hún mál, ekki gegn DV ehf. heldur gegn okkur persónulega, og krafðist hámarks refsingar, þ.e. að við yrðum vistaðir í fangelsi vegna mistaka okkar. Nokkru síðar var Gísli Freyr Valdórsson, nánasti samstarfsmaður Þóreyjar, dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir lögbrot gegn hælisleitendunum Tony Omos og Evelyn Glory Joseph.
Í heilt ár höfum við skrifað um málefni innanríkisráðuneytisins, valdníðslu og lögbrot sem framin voru gegn landlausu fólki. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér ráðherraembætti vegna málsins en Þórey starfaði sem pólitískur aðstoðarmaður hennar. Strax í upphafi lekamálsins tók hún sér stöðu með ráðherra gegn almenningi líkt og aðrir í yfirstjórn innanríkisráðuneytisins. Hún sendi DV misvísandi upplýsingar í tölvupósti, hún hélt því fram að engum trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu þótt hið gagnstæða lægi í augum uppi og lét að því liggja í útvarpsviðtali að við létum stjórnast af annarlegum hvötum fremur en einlægum vilja til að leiða sannleikann í ljós. Ráðherrann sjálfur fylgdi þessu eftir með því að hringja í ritstjóra DV og fara fram á að við yrðum reknir.
Sú frétt sem birtist í DV þann 20. júní átti sér langan aðdraganda og byggði á mánaðalangri heimildavinnu þar sem rætt var við starfsmenn innanríkisráðuneytisins, Morgunblaðsins, 365-miðla og lögreglunnar. Þórey vildi ekki ræða við DV í síma við vinnslu fréttarinnar jafnvel þótt hún gegndi þá hlutverki upplýsingafulltrúa ráðuneytisins í fjarveru Jóhannesar Tómassonar. Henni var hins vegar gert ljóst hvert efni fréttarinnar var og boðið að koma athugasemdum á framfæri sem hún kaus að gera ekki.
Málssókn Þóreyjar hefur verið gagnrýnd harðlega meðal annars af Fréttamönnum án landamæra, Alþjóðasamtökum blaðamanna, International Modern Media Institute og Blaðamannafélagi Íslands. Þessi samtök hafa deilt á íslenska meiðyrðalöggjöf, meðal annars þær lagagreinar sem málshöfðun Þóreyjar og refsikrafa hennar byggði á. Mál hennar vakti athygli utan landsteina, enda var hún aðstoðarkona innanríkisráðherra, þess ráðherra sem fór með mannréttindamál á Íslandi.
Það er áhyggjuefni fyrir blaðamenn á Íslandi að geta átt von á því að ráðherrar og pólitískir aðstoðarmenn vegi að starfsöryggi þeirra með þeim hætti sem birst hefur í lekamálinu.
Við höfum lýst yfir einlægum vilja til að mæta Þóreyju Vilhjálmsdóttur í dómssal. Eigendur DV ehf. vildu hins vegar leita sátta og unum við því. Við kærum okkur ekki um að sitja uppi með háa reikninga, hvað þá að betla fé af vinum og vandamönnum til að geta greitt þá. Við erum ekki á þingfararkaupi en vinnum við að flytja fréttir, meðal annars um það sem ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra vilja að leynt fari.
Á heilu ári virðist það aldrei hafa hvarflað að stuðningsmönnum innanríkisráðherra að skammast sín. Við skömmumst okkar fyrir þau mistök sem við gerðum í sumar. En á heildina litið erum við stoltir af okkar hlut í að fletta ofan af valdníðslu og mannréttindabrotum. Með dómssátt þessari kaupum við okkur frið til að skrifa áfram um hver þau öfl sem ljúga að almenningi og níðast á umkomulausu fólki.
Virðingarfyllst,
Jóhann Páll Jóhannsson
Jón Bjarki Magnússon
blaðamenn