„Breiðholt á ekki að reyna að verða Brooklyn, Breiðholt á að vera Breiðholt,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. Því var á dögunum velt upp á vefsíðu Kjarnans, í bakherbergi, hvort Breiðholt gæti orðið eins konar Brooklyn Reykjavíkur, það er haft sömu áhrif fyrir Reykjavík framtíðarinnar og Brooklyn hefur haft fyrir New York á undanförnum árum. Þar er nú heimsþekktur suðupottur mannlífs og sköpunar.
Dagur segir Breiðholtið vera magnað og gott hverfi, og að þróunin þar þessa dagana sé mjög áhugaverð fyrir borgina. „Á síðustu misserum höfum við verið að styðja við ýmislegt skapandi í Breiðholti. Höfum opnað FabLab sem er tæknivædd þrívíddarhönnun í Eddufelli, Nýlistasafnið er komið í Völvufell, við höfum fengið marga framúrskarandi listamenn til að skreyta stærslu húsgafla borgarinnar, einsog frægt er orðið. Auk þess höfum við skipað sérstakan hverfisstjóra, tekið allar skólalóðir hverfisins í gegn, efnt til verkefnis um sí- og endurmenntun, farið í geðræktarátak og svo framvegis. Á næstunni mun vonandi líkamsræktarstöð fara í byggingu, ÍR hefur verið að gera ótrúlega fína hluti í mörgum greinum og Leiknir mun spila í úrvalsdeild næsta sumar. Þegar við horfum á það að fyrir eru flottir skólar og gott samfélag, FB er sterkur framhaldsskóli, ekki síst í listgreinum - þá er ekkert skrýtið að allt þetta leiði af sér þróun þar sem ungu og skapandi fólki fjölgar, ég gæti trúað að áhugaverðir veitingastaðir eða kaffihús muni fylgja í kjölfarið og hverfið þróast á jákvæðan og uppbyggilegan hátt,“ segir Dagur.
Hann segir íbúana í hverfinu vera svo sannarlega til í að efla jákvæða þróun hverfisins, það hafi margsýnt sig og borgaryfirvöld hafi sérstakan metnað til þess að ýta undir og vinna betur með áhuga íbúana. „En ég ítreka að ég vona að það verði á forsendum lífsgæðanna og sérstöðu Breiðholtsins, frekar en að við eltum einhverja eina fyrirmynd,“ segir Dagur.