Reykjavíkurborg sér fram á að rekstrarhalli A-hluta borgarsjóðs, þess hluta sem rekinn er fyrir skatttekjur, verði tæpir 15,3 milljarðar króna á þessu ári og tæpir 6 milljarða á því næsta. Árið 2024 sér borgin hins vegar fyrir sér að rekstrarniðurstaðan A-hlutans verði orðin jákvæð, samkvæmt fjármálastefnu og áætlunum borgarinnar.
Í áætlunum borgarinnar, sem kynntar voru með tilkynningu til Kauphallar í morgun og voru til umræðu á borgarstjórnarfundi í dag, er gert ráð fyrir því að frá og með árinu 2024 hafi framlög ríkisins til málaflokks fatlaðs fólks verið leiðrétt sem nemi hluta af þeim halla sem þegar sé við að eiga, og að halli af þeim rekstri aukist ekki á næstu fimm árum.
Einnig eru lagðar eru fram áætlanir um töluverða hagræðingu á ýmsum sviðum borgarinnar, þar með talið eitt prósent árleg hagræðingarkrafa á launakostnað á nær öllum starfsstöðvum borgarinnar á árunum 2023 til 2025, auk hagræðingar annars rekstrarkostnaðar.
Auk þessara aðgerða boðaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, í kynningu sinni í borgarstjórn í dag, að aðgerðir til eins milljarðs króna árlegrar hagræðingar til viðbótar yrðu lagðar fram áður en fjárhagsáætlanir borgarinnar verða teknar aftur til umræðu á fundi í borgarstjórn í byrjun desember.
Gengið út frá því að færri starfi á leikskólum á næsta ári en þessu
Samkvæmt áætlunum borgarinnar nær hagræðingarkrafa næstu ára á launakostnað einnig til leik- og grunnskóla borgarinnar. Í framsettum áætlunum um rekstur skóla- og frístundasviðs er þannig gengið út frá því að starfsmönnum á leikskólum fækki um alls 75 á milli ára, úr 1.775 á þessu ári niður í 1.700 á því næsta, á sama tíma og verið er að gera áætlanir um að fjölga leikskólaplássum.
Einnig er gengið út frá því að starfsfólki grunnskóla í borginni fækki um 41 á milli ára, úr 2.295 niður í 2.254 og þess er vænst í áætlunum borgarinnar að fjöldi barna sem nýti sér þjónustu frístundaheimila dragist saman um 22 á milli ára.
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðum á fundi borgarstjórnar í dag að þessar tölur vektu upp áhyggjur og ekki síður það að í áætlunum borgarinnar væri ekki gengið út frá því að hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara hækkaði umfram það sem það er í dag.
„Það verður auðvitað að vera þannig að áætlanir borgarinnar þær verða að taka mið af þjónustuþörfinni. Við erum ekki að fara að stytta biðlista á leikskólum eða frístundaheimilum með því að fækka starfsfólki og vanáætla pláss í áætlunum, það gengur ekki upp,“ sagði Hildur.
Gert ráð fyrir 3,4 milljarða halla sem stefnir í 15,3 milljarða
Þegar fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2022 var samþykkt undir lok síðasta árs var gert ráð fyrir því að halli á A-hluta borgarsjóðs yrði 3,4 milljarðar á þessu ári, en nú er útlit fyrir 15,3 milljarða halla sem áður segir. Þetta segir borgin í tilkynningu að skýrist „einkum af verðbólgu og vanfjármögnun [ríkisins] á rekstri málaflokks fatlaðs fólks“.
„Vandinn er mikill,“ sagði Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs og oddviti Framsóknarflokks í umræðum í borgarstjórn í dag.
Hann sagði í ræðu sinni að honum hefði ekki grunað að staðan yrði svona þung er hann ákvað að fara í framboð fyrr á árinu, þrátt fyrir að honum hefði grunað að fjárhagsstaða sveitarfélaga væri þröng.
Hvatti hann borgarfulltrúa til þess að vinna saman að úrlausn mála. Sagði Einar þannig að horfa mætti með opnum huga á tillögur sem bornar voru á borð af Hildi Björnsdóttur oddvita sjálfstæðismanna, bæði varðandi breytingar á rekstri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og útboð á rekstri bílastæðahúsa í eigu borgarinnar til einkaaðila.
Í áætlunum borgarinnar er gert ráð fyrir því að samanlögð rekstrarniðurstaða A- og B-hluta borgarinnar verði jákvæð um 8,1 milljarð króna á næsta ári, og jákvæð um 15,4 milljarða króna á árinu sem er að líða.