Reykjavíkurborg mun leita réttar síns fyrir dómstólum og krefjast skaðabóta fyrir eignaupptöku ef frumvarp Höskuldar Þórhallssonar og annarra þingmanna Framsóknarflokksins um að flytja skipulagsvald flugvallarins í Vatnsmýri frá borginni til ríkisins verður að lögum. „Ljóst er að afleitt tjón vegna samþykktar frumvarpsins getur varðað tugum eða hundruðum milljarða króna.“
Þetta kemur fram í umsögn borgarinnar um frumvarpið, en eins og Kjarninn greindi frá í morgun var frumvarpið afgreitt úr umhverfis- og skipulagsnefnd í morgun.
Borgin er mjög harðorð í garð frumvarpsins, segir það fela í sér freklegt inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga og það sé fordæmalaust.
„Það er álit Reykjavíkurborgar að það sé lagalega illfært og jafnvel ómögulegt að setja almenn lög, sem ganga m.a. gegn stjórnarskrá lýðveldisins, til að ríkið nái yfirráðum yfir flugvallarsvæðinu. Má nefna að Reykjavíkurborg á um 60% þess lands sem er undir flugvellinum í Vatnsmýri og að uppfylltum almennum skilyrðum í íslenskum skaðabótarétti blasir við að íslenska ríkið muni valda sveitarfélaginu tjóni með háttsemi sinni við lagasetninguna, í frumvarpinu felst því ekkert annað en eignaupptaka lands,“ segir í umsögninni. Þá vísar borgin til meginreglu um bótaskyldu, þar sem fram kemur að sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni vegna rýrnunar á verðmæti og skertum nýtingarmöguleikum af þessum sökum eigi rétt á bótum. Tjónið verði sem fyrr segir tugir, eða hundruð milljarða.
„Reykjavíkurborg vill enn fremur undirstrika að stefna borgarinnar um byggð í Vatnsmýri hefur nú legið fyrir í yfir 10 ár. Má ljóst vera að með frumvarpinu er ríkið að koma sér hjá því að uppfylla samningsskuldbindingar sínar varðandi framtíð flugvallarins. Reykjavíkurborg telur frumvarpið fordæmalaust inngrip í sjálfstjórnarrétt sveitarfélagsins og skipulagsvald.“