Borið hefur á svokölluðum phising-árásum tölvuþrjóta að undanförnu, en með þeim er gerð tilraun til að stela auðkennum viðskipta fjármálafyrirtækja með það að markmiði að komast yfir fjármuni. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækja, segir fjármálafyrirtæki vera vel á verði þegar að þessu kemur, en nauðsynlegt sé að styrkja net- og tölvuöryggi í þessum málum enn frekar, eftir því sem áhrif internetsins á fjármálaþjónustu og daglegt líf verða meiri og dýpri.
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF.
„Þessar árásir hafa ekki borið mikinn árangur hingað til, en ýta undir mikilvægi þess að almenningur sé vel á verði og láti ekki frá sér viðkvæmar persónuupplýsingar gegnum netið. Þá er ekki síður mikilvægt að lagaumhverfið þróist í takt við þessa nýju tíma, þannig hafa bankar á Norðurlöndum fengið auknar heimildir til samstarfs um öryggismál á þessu sviði og skerpt hefur verið á viðurlagaákvæðum í löggjöf til að ná betur utanum slík brot,“ segir Guðjón.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær þá þykja tölvuöryggismál hér á landi vera í nokkrum ólestri, og langt í frá að það sé tryggt nægilega vel, þegar kemur að innviðum landsins. Kemur þetta meðal annars fram í skýrslu sem unnin var um þessi mál árið 2013 (Iceland – A Wapack Labs Assessment of Risks to Information Security in Iceland).
Meðal annars er Seðlabanki Íslands talinn geta verið miðpunktur veikleika þegar að þessu kemur, ekki síst þar sem hann ábyrgist fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Þá eru orkukerfi landsins talin vera með of veikan tölvustýringarbúnað, sem opni fyrir möguleika á árásum. Afleiðingarnar geti meðal annars verið aðgerðir sem beinist að álfyrirtækjunum hér á landi. Fleiri atriði eru nefnd til sögunnar, sem geta aukið hættuna á tölvuárásum, þar á meðal er aukið pólitískt samstarf við Kína. Slíkt geti dregið athygli tölvuhakkara að Íslandi, og aukið hættuna á tölvuárásum.