Andrea Leadsom, undirráðherra fyrir efnahagsmál í breska fjármálaráðuneytinu, segist hafa þrýst á íslenska ráðherra að hraða endurgreiðslu á fé breskra skattgreiðenda sem þeir áttu inni hjá þrotabúi gamla Landsbankans. Hún staðfesti í gær að bresk stjórnvöld hefðu fengið rúmlega 257 milljarða króna greidda úr þrotabúinu, en krafa þeirra er tilkomin vegna greiðslu þeirra á innstæðutryggingu til þeirra Breta sem áttu fé á Icesave-reikningum Landsbankans fyrir hrun.
Þrotabú gamla Landsbankans fékk undanþágu frá Seðlabanka Íslands í byrjun desember til að greiða út um 400 milljarða króna forgangskröfur út úr búinu. Þær greiðslur voru framkvæmdar í vikunni og þorri þeirra rann til breska ríkisins. Það hefur nú fengið um 85 prósent af kröfum sínum í þrotabú Landsbankans greiddar. Búið telur sig eiga um 218 milljarða króna umfram forgangskröfur og því ljóst að allar Icesave-kröfur í bú þess ættu að greiðast.
Þrýsti á ráðherra að hraða endurgreiðslum
Greint er frá endurgreiðslunni á vef breska fjármálaráðuneytisins. Þar er haft eftir Leadsom að hún hafi „þrýst á ráðherra á Íslandi að hraða endurgreiðslum á fé í eigu breskra skattgreiðenda. Þess vegna er það mjög ánægjulegt að við höfum tekið við frekari, og umtalsverðri, greiðslu frá þrotabúi Landsbankans, sem starfrækti Icesave í Bretlandi. Þessi greiðsla þýðir að við höfum nú fengið 85 prósent af heildarkröfum okkar vegna falls Icesave“.
Leadsom sagði ennfremur: „Fall íslenskra banka kostaði skattgreiðendur milljarða punda, án þess að nokkur vissa væri fyrir því að fá þá peninga til baka. Við erum áfram ákveðin í að ná allri þeirri útistandandi upphæð sem er í eigu breskra skattgreiðenda til baka frá þrotabúi Landsbankans, og munum halda áfram að vinna að því að láta það verða að veruleika sem allra fyrst.“
Hollendingar seldu kröfu til vogunarsjóða
Icesave-reikningar Landsbankans voru líka starfræktir í Hollandi og því var hollenski seðlabankinn líka stór kröfuhafi í þrotabú Landsbankans, enda greiddi hann líka út innstæðutryggingu til hollenskra viðskiptavina Icesave. Hollenski Seðlabankinn tilkynnti hins vegar í ágúst að hann hefði selt eftirstöðvar kröfu sinnar áfram til þýska bankarisans Deutsche Bank.
Kjarninn greindi svo frá því að Deutche Bank hefði selt kröfuna áfram, aðallega til hóps vogunarsjóða sem eiga mikið af kröfum á fallna íslenska banka. Á meðal þeirra er Burlington Loan Management, stærsti einstaki kröfuhafi Ísland. Sjóðurinn er í stýringu Davidson Kempner, eins stærsta vogunarsjóðs í heimi.