Átta hafa sótt um stöðu ríkissáttarsemjara, en frestur til að sækja um stöðuna rann út í vikunni. Magnús Pétursson, núverandi ríkissáttarsemjari, lætur af störfum í lok maí og nýr tekur við keflinu daginn eftir, 1. júní. Sá sem fær starfið fær það erfiða verkefni að höggva á nánast fordæmalausan hnút sem er til staðar í kjaradeilum aðila vinnumarkaðarins, ef ekki hefur tekist að semja fyrir þann tíma. Þekktasta nafnið á lista yfir umsækjendur er Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrum alþingismaður Samfylkingarinnar, fyrrum rektor Bifrastarháskóla og núverandi starfsmannastjóri Landsspítalans.
Þeir átta sem sóttu um starfið eru:
- Bryndís Hlöðversdóttir
- Dagný Rut Haraldsdóttir
- Erna Einarsdóttir
- Guðjón Helgi Egilsson
- Guðmundur Halldórsson
- Kolbrún Ásta Bjarnadóttir
- Þorsteinn Þorsteinsson
- Þórólfur Geir Matthíasson
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda. Skipað verður í embættið frá 1. júní 2015 til næstu fimm ára. Í þeirri nefnd sitja:
- Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, lögfræðingur
- Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur
- Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur
Böðvar Héðinsson, staðgengill skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu, starfar með nefndinni.