Stjórn BSRB mótmælir fyrirhugaðri lagasetningu stjórnvalda á verkfallsaðgerðir BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin hefur sent frá sér.
Ályktunin er svohljóðandi:
„Stjórn BSRB bendir á að í samningaviðræðum síðustu vikna hefur samninganefnd ríkisins talið sig bundna af ákvæðum í nýgerðum samningum á almennum markaði. Sú afstaða ríkisins hefur því skert samningsfrelsi BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Nú þegar stjórnvöld hafa ákveðið að koma í veg fyrir frekari verkfallsaðgerðir umræddra félaga með lögum hefur samningsstaða BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga versnað enn frekar.
Forsenda þess að kjaradeilur leysist á farsælan hátt er að samið sé um niðurstöðuna á jafnréttisgrundvelli við samningaborðið. Nýjasta útspil ríkisins hefur veikt samningsstöðu opinberra starfsmanna til muna og jafnframt fært kjarasamningaviðræðurnar fjær þeirri norrænu aðferðarfræði við gerð samninga sem ríkið hefur þó lagt mikla áherslu á að hér verði tekin upp.
Að lokum hvetur stjórn BSRB stjórnvöld til að axla ábyrgð á stöðunni og koma með raunhæfar lausnir að samningaborðinu í stað þess að bera fyrir sig ákvæði í samningum á almennum markaði.“