Frá síðustu áramótum er ríkissjóður búinn að greiða liðlega 51 milljarð króna inn á verðtryggð húsnæðislán þeirra sem áttu rétt á að fá skuldaniðurfellingu í Leiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir ennfremur að alls verði 80 milljörðum króna ráðstafað vegna höfuðstólslækkunarinnar, þar af verði sex milljörðum króna ráðstafað í persónuafslátt í gegnum skattkerfið til þeirra sem áttu rétt á leiðréttingu en eru í dag ekki með húsnæðislán. Af þeim fjármunum sem ráðstafað er til fjármálastofnana inn á höfuðstól verðtryggðra lána verður 75 prósent greitt á þessu ári.
Síðasti fjórðungur niðurfærslu verðtryggðra lána úr ríkissjóði verður greiddur inn á höfuðstól þeirra lána sem falla undir Leiðréttinguna í ársbyrjun 2016.
Skuldir lækka hratt
Í frétt ráðuneytisins er einnig greint frá því að skuldir íslenskra heimila hafi lækkað hratt undanfarin misseri. Þær séu nú jafnar því sem þær voru árið 2004 sem hlutfall af landsframleiðslu. Í árslok 2014 voru þær um 90,5 prósent af landsframleiðslu og höfðu lækkað um tíu prósentustig á síðasta ári.
Stærsti hluti skulda heimila eru íbúðaskuldir. Frá því að hægt var að sækja um skuldaniðurfellingar úr ríkissjóði, um mitt ár 2014, hafa íbúðaskuldir sem hlutfall af landsframleiðslu lækkað úr 72 prósent í 65 prósent. Vert er að taka fram að greiðsla inn á höfuðstól þeirra lána sem féllu undir Leiðréttinguna hófust ekki fyrr en á þessu ári.
Í fréttinni segir að skuldir heimila hafi lækkað mun hraðar hér en í flestum nágrannalöndum okkar á undanförnu árum. "Um mitt ár 2009 var hlutfall skulda heimilanna 126% af VLF. Þá var aðeins Danmörk með hærra skuldahlutfall af þeim löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við (Bretland, Danmörk, Holland, Írland, Noregur, Svíþjóð,Sviss og Kýpur). Síðan þá hefur skuldahlutfallið lækkað um 38 prósentustig og af þessum samanburðarlöndum hefur aðeins Írland náð svipuðum árangri í lækkun skulda."