Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur verið kölluð saman til að funda klukkan 17 í dag. Á dagskrá fundarins er undirbúningur áætlunar um losun fjármagnshafta. Í kjölfarið hefur verið boðað til þingfundar á Alþingi sem mun hefjast klukkan 22 í kvöld. Þar á að fjalla um hluta þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í í haftamálum í komandi viku.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Vísi að planið sé að nefndin fjalli um málið fyrirfram svo ekki þurfi að vísa því til hennar. "Svo verði hægt að afgreiða þetta í rikk á sem stystum tíma."
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á föstudag áætlun sína um losun hafta fyrir ríkisstjórn og skýrði frá því að fyrstu frumvörpin sem þarf að lögfesta til að sú áætlun geti tekið gildi væru væntanleg.
Afar óvenjulegt er að boðað sé til þingfundar á sunnudegi en leiða má líkum að því að ástæðan sé meðal annars sú að ríkisstjórnin vilji klára afgreiðslu þeirra frumvarpa sem lögð verða fyrir í kvöld áður en markaðir opna á morgun. Með því að afgreiða málið í dag hafi allir sama aðgang að upplýsingum í fyrramálið þegar markaðir opna.
Ýmislegt vitað um innihaldið
Það sem er vitað um áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta er að slitabúunum verði gefnar nokkrar vikur til þess að ganga frá nauðasamningum sínum sem uppfylli skilyrði áætlunarinnar um að ógna ekki greiðslujöfnuði Íslands til lengri tíma. Það þýðir á mannamáli að þau þurfa að gefa eftir umtalsvert af innlendum eignum sínum.
Í DV á föstudag kom fram að sú upphæð nemi um 500 milljörðum krona. Takist ekki að semja á þeim tíma sem gefin er verður stöðugleikaskattur, sem DV segir að verði 40 prósent, lagður á eignir búanna. Athygli vekur að álagning stöðugleikaskattsins er þar með orðin skilyrt, er nokkurs konar hótun, en hann ekki lagður beint á búin.
Viðræður hafa staðið yfir um nokkur skeið
Viðræður milli framkvæmdahóps um losun hafta og slitastjórna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hófust með formlegum hætti í fyrrahaust. Á fyrstu fundunum voru engin skilyrði lögð fram heldur var farið almennt yfir stöðuna, greiðslujöfnuð íslenska hagkerfisins og framlagðar tillögur um nauðsamninga sem þrotabú Kaupþings og Glitnis hafa lagt fram.
Slitastjórnir þeirra beggja sóttu nefnilega báðar um undanþáguheimild frá fjármagnshöftum síðla árs 2012 til að ljúka nauðasamningum sínum. Seðlabankinn gaf það þó fljótlega út opinberlega að ekki væru forsendur til að ljúka nauðasamningum með þeim hætti sem undanþágubeiðnirnar lögðu málið upp. Áhrif nauðasamninganna á greiðslujöfnuð Íslands, og að þau yrðu ekki neikvæð, þyrftu fyrst að liggja fyrir.
Heimildir Kjarnans herma að þau skilyrði hafi verið lögð fyrir þær á undanförnum vikum í viðræðum milli framkvæmdahópsins og fulltrúa slitastjórnanna. Mikil leynd er yfir þeim viðræðum og allir sem að þeim koma voru látnir undirrita trúnaðareið.