Viðræðum Íslands, Noregs og Liecthenstein, ríkjanna þriggja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), við Evrópusambandið um greiðslur í uppbyggingarsjóð EES, sem áður hét þróunarsjóður EFTA, lauk með samkomulagi fyrir helgi. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest.
Greiðslur í sjóðinn eru oft kallaðar aðgangsmiðinn að innri markaði Evrópu, gjaldið sem ríkin þrjú greiða fyrir aukaðild sína að þessumstærsta útflutningsmarkaði sínum án þess að vera fullgildir meðlimir Evrópusambandsins. Síðasta samkomulag um greiðslur í sjóðinn rann út í lok apríl 2014 og því hafði verið ósamið í um fimmtán mánuði.
Ástæða þess að illa gekk að semja var sú að Evrópusambandið hefur farið fram á allt að þriðjungshækkun á framlögum í sjóðinn, sem EES-löndin þrjú vildu ekki sætta sig við.
Ef gengið hefði verið að upphaflegum kröfum Evrópusambandsins myndi Ísland þurfa að greiða um 6,5 milljarða króna í sjóðinn vegna tímabilsins 2014-2019. Fyrir síðasta samningstímabil, sem stóð frá 2009-2014, greiddu Íslendingar 4,9 milljarða króna. Því yrði um hækkun upp á 1,6 milljarða króna að ræða. Ekkert EFTA-ríkjanna þriggja sem greiða í sjóðinn voru tilbúin til að ganga að þessum kröfum og taka á sig hækkanir af þessari stærðargráðu.
Niðurstaða viðræðnanna varð á endanum sú að greiðslur Íslands hækka um ellefu prósent, sem telst innan marka verðlangsbreytinga frá 2009. Auk þess verður innflutningskvóti tollfrjálsra sjávarafurða frá Íslandi til Evrópsambandsins aukin verulega. Samningurinn gildir í sjö ár, en fyrri tveir samningar giltu í fimm ár.
Vinnur gegn mismunun
Þróunarsjóður EFTA, nú uppbyggingasjóður EES, var settur upp sem hluti af EES-samningnum, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liecthenstein greiða í hann eftir stærð og landsframleiðslu hvers þeirra. Yfirlýstur tilgangur hans er að vinna gegn efnahagslegri- og félagslegri mismunum í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem þiggja aðstoð úr sjóðnum.
Styrkir eru greiddir út á grundvelli áætlanna sem styrktarlöndin gera. Á síðasta samningstímabili runnu greiðslur úr sjóðnum til 15 Evrópusambandslanda sem uppfylltu skilyrði til að þiggja þær. Stærstu heildarstyrkirnir fóru til Póllands (267 milljónir evra) og Rúmeníu (191 milljón evra). Önnur ríki sem fengu greiðslur eru Bulgaría, Kýpur, Tékkland, Eistland, Grikkland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía og Spánn.
Greiðslur Íslands aukist umtalsvert undanfarin ár
Greiðslur Íslands voru mun lægri, þótt þær hafi farið ört hækkandi. Frá árinu 1994, þegar EES-samningurinn gekk í gildi, og fram til 1. maí 2009 greiddum við samtals 2,9 milljarða króna á verðlagi ársins 2010. Þrátt fyrir að Íslandi hafi verið sýnt skilningur í síðasta samningi þá jukust greiðslur landsins samt sem áður gríðarlega og voru 4,9 milljarðar króna á árunum 2009-2014. Þar af er áætlað að við greiddum um 1,4 milljarða króna í sjóðinn í fyrra, á árinu 2014. Aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópusambandsins er því að hækka mjög hratt í verði. Greiðslur Íslands á síðustu fimm árum eru 70 prósent hærri en greitt var í sjóðinn fimmtán árin þar áður.
Viðræður um nýtt samkomulag hófust snemma á síðasta ári. Fyrsti formlegi fundur EFTA-ríkjanna og fulltrúa Evrópusambandsins vegna þess var 22. janúar síðastliðinn.
Mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands
EES-samningurinn er mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Hann veitir Íslandi nokkurskonar aukaaðild að innir markaði Evrópu án tolla og gjalda á flestar vörur. Um 80 prósent af útflutningi okkar fer til Evrópu, að langmestu leyti til landa sem tilheyra innri markaðinum, og um 60 prósent af því sem við flytjum inn koma þaðan.
Vankostirnir við EES-samninginn eru síðan þeir að Ísland undirgekkst að taka upp stóran hluta af regluverki Evrópusambandsins án þess að geta haft nokkur áhrif á mótun þess.