Nýtt frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um fiskveiðistjórnun hefur enn ekki verið lagt fram þrátt fyrir að hafa verið tilbúið fyrir síðustu jól. Samkvæmt Fréttablaðinu er ástæðan sú að mikill ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna tveggja, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, um málið.
Þar segir að innan Sjálfstæðisflokksins sé "óánægja með það að enn á ný standi til að hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfi sem flokkurinn telur að virki vel í grundvallaratriðum. Slíkt eigi ekki að gera nema víðfeðm sátt ríki um breytingarnar, sem sé ekki fyrir hendi nú. Engin þörf sé á breytingum á kerfinu, þó að taka verði ákvörðun varðandi veiðigjöld.
Ágreiningurinn snúist því um hvort aðeins eigi að samþykkja ramma utan um veiðigjöld eða að leggja fram heildstæðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það má því segja að ágreiningur inn snúist um mun á stefnu flokkanna í sjávarútvegsmálum".
23 ára leiga, 15 ára uppsagnarfrestur
Samkvæmt frumvarpinu á að koma upp svokölluðu kvótaþingi, líkt og áður hefur verið greint frá. Það myndi þýða að öll viðskipti með kvóta yrðu á markaði. Auk þess er gert ráð fyrir að samið verði um nýtingu veiðiréttar til lengri tíma. Líklegasta niðurstaðan þar, sem samkvæmt heimildum Kjarnans er ágætt sátt um, er að leigan verði til 23 ára. Ríkið getur þá sagt upp samningunum eftir átta ár en uppsagnarfresturinn verður fimmtán ár.
Í Fréttablaðinu er rifjað upp að drög að frumvarpinu hafi verið kynnt á sameiginlegum þingflokki stjórnarflokkanna í lok nóvember. Síðan hefi hvorki gengið né rekið í málinu og að það sé nú strand.