Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur falið Byggðastofnun að gera úttekt á áhrifum innflutningsbanns Rússa á matvæli frá Íslandi á einstökum svæðum á landinu. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
„Það hefur komið fram að þetta gæti haft verulegt tjón á einstökum svæðum á landinu. Þess vegna hef ég falið Byggðastofnun að gera úttekt á áhrifum þess. Sú úttekt liggur ekki fyrir. Aðalatriðið núna er að allir haldi ró sinni og fari yfir þá heildarhagsmuni sem í húfi eru,“ sagði Sigurður Ingi.
Ráðherra sagði að íslenskt samfélag þurfi að haga seglum eftir vindi og að hagsmunir þjóðarinnar séu alltaf í fararbroddi.. Mikilvægt sé að vega saman ákvarðanir vestrænna ríkja annars vegar og 70 ára viðskiptasögu við Rússa hins vegar áður en frekari ákvarðanir séu teknar um stuðning við viðskiptaþvingangir vestrænna ríkja gegn Rússlandi.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og flokksbróðir Sigurðar Inga, sagði í gær að það sé óheiðarlegt hvernig sumir útgerðarmenn hafa talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ef menn taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá veltir hann því óneitanlega fyrir sér hvort þeir séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina. Þetta sagði utanríkisráðherra í þættinum Sprengisandi í gær.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi meta áætlað virði útflutnings sem tapast í ár vegna innflutningsbanns Rússa nema um 37 milljörðum króna. Útflutningur til Rússlands á síðasta ári nam um 29,1 milljörðum en hann hefur margfaldast á síðustu árum, helst vegna aukins verðmæti og útflutnings á makríl og síld.