Samkeppniseftirlitið hefur lagt 650 milljón króna stjórnvaldssekt á Norvik, móðurfélag Byko, fyrir brot gegn samkeppnislögum og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna umfangsmikil ólögmæts samráðs við gömlu Húsasmiðjuna. Í frétt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins segir: "Samkeppniseftirlitið telur að brot Byko séu mjög alvarleg og hafi verið framin af ásetningi. Þau voru til þess fallin að valda húsbyggjendum og almenningi öllum umtalsverðu tjóni. Nánar er rökstutt í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hæfileg sekt vegna þessa sé 650 mkr. Til að stuðla m.a. að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyrir er sektin lögð á móðurfélag Byko, Norvík."
Í fréttinni segir einnig að brot Byko hafi verið eftirfarandi:
- Reglubundin, yfirleitt vikuleg, samskipti við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á svonefndum grófvörum (grófvörur eru t.d. timbur, steinull og stál).
- Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum.
- Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.
- Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð á miðstöðvarofnum.
- Að hafa gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.
Hægt er að lesa nánari samantekt á brotum Byko hér.
Steinull þarf að borga 20 milljónir
Í ákvörðun sinni kemst Samkeppniseftirlitið einnig að því að Steinull hf. hafi brotið gegn skilyrðum í ákvörðun samkeppnisráðs með því að veita Húsasmiðjunni upplýsingar um viðskiptakjör Múrbúðarinnar, samkeppnisaðila á markaði. Steinull á Steinullarverksmiðjuna, sem er í eigu Byko, Húsasmiðjunnar og Kaupfélags Skagfirðinga. Samkeppniseftirlitið taldi hæfilegt að leggja 20 milljóna króna stjórnvaldssekt á Steinull vegna þessa.
Í úrskurði eftirlitsins segir einnig: "Brot þessa máls tengjast ekki núverandi rekstraraðilum Húsasmiðjunnar. Rannsókn á þætti Húsasmiðjunnar í málinu lauk í júlí á síðasta ári. Með sátt, dags. 9. júlí 2014, viðurkenndi fyrrum rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf., að gamla Húsasmiðjan hefði átt í ólögmætu samráði við Byko með þeim hætti sem lýst er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem gefin er út í dag. Þá var einnig viðurkennt að gamla Húsasmiðjan hefði og brotið gegn fyrrgreindri ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002, m.a. með því að hafa beitt sér gagnvart Steinull til að koma í veg fyrir að Múrbúðin fengi ákveðin viðskiptakjör. Jafnframt var stjórnvaldssekt greidd vegna brotanna. Þá gerði núverandi rekstraraðili Húsasmiðjunnar sátt við Samkeppniseftirlitið sama dag, þar sem Húsasmiðjan skuldbatt sig til að grípa til aðgerða til að tryggja að umrædd brot endurtækju sig ekki."
Búið að áfrýja sakamálinu
Í apríl sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur ellefu af tólf sakborningum í sakamáli sem embætti sérstaks saksóknara höfðaði gegn starfsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar sýknaðir. Samkvæmt frétt Samkeppniseftirlitsins hefur þeim dómi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Það sakamál hefur ekki áhrif á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.
Samkvæmt yfirliti yfir mannafla- og tímaskráningu hjá sérstökum saksóknara, vegna rannsóknar embættisins á meintu verðsamráði Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, komu 31 starfsmaður embættisins að rannsókn málsins. Samkvæmt skráningunni, sem lögð var fram fyrir dómi og Kjarninn hefur undir höndum, unnu starfsmennirnir að málinu í alls 11.854 vinnustundir. Þá er ótalinn tímafjöldinn sem fór í flutning málsins fyrir Héraðsdómi. Þá hefur Kjarninn óskað eftir sambærilegum upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu, þar sem upphaf málsins má rekja til. Ekkert svar hefur enn borist Kjarnanum frá stofnuninni.
Alls tóku sextán starfsmenn sérstaks saksóknara þátt í úrvinnslu gagna og yfirheyrslum við rannsókn verðsamráðsmálsins hjá embættinu, sem voru lang mannaflsfrekustu liðir rannsóknarinnar að því er fram kemur í yfirliti embættisins. Skráningin gildir frá þeim tíma er málið barst embætti sérstaks saksóknara. Allir tólf sakborningar málsins voru sýknaðir, nema einn sem hlaut skilorðsbundinn dóm.
90 milljóna króna málsvarnarlaun lentu á ríkinu
Upphaflega voru þrettán starfsmenn fyrirtækjanna ákærðir fyrir þátt sinn í hinu meinta verðsamráði. Einni ákæru var vísað frá, og því stóðu tólf eftir sem tóku til varna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn sýknaði alla sakborninga af sakargiftum þann 9. apríl, fyrir utan framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko sem var sakfelldur fyrir hvatningu til verðsamráðs. Hann hlaut eins mánaðar skilorðsbundinn dóm til tveggja ára, en hann neitaði sök fyrir dómi. En auk þessa dæmdi Héraðsdómur íslenska ríkið til að greiða nær öll málsvarnarlaun sakborninganna, rúmlega 90 milljónir króna.
Mennirnir voru handteknir í mars 2011, og því hefur málið staðið yfir í rúm fjögur ár. Málið kom upprunalega til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra frá Samkeppniseftirlitinu. Þann 1. september tók svo sérstakur saksóknari við rannsókn málsins þegar efnahagsbrotadeildin var sameinuð embættinu.