Fasteignafélagið Eik var varla tækt til verðmats við skráningu þar sem í skráningarlýsingu félagsins voru engar fjárhagsupplýsingar um fasteignafélagið Landsfestar, sem Eik yfirtók á árinu 2014. Eik var samt sem áður skráð á markað í apríl 2015. Þetta er mat sérfræðinga Capacent sem unnið hafa skýrslu um fasteignafélögin þrjú í Kauphöllinni. Greint er frá skýrslunni í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Snorri Jakobsson, ráðgjafi og séfræðingur hjá Capacent, að samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti eigi að vera hægt að meta framtíðarhorfur félags í skráningarlýsingu þess áður en það sé skráð á markað. Hjá Eik hafi allar upplýsingar um eignir félagsins verið til fyrirmyndar en vantað upplýsingar um stóran hluta rekstursins þar sem upplýsingar um Landfestar hafi vantað, en Landfestar eru um 40 prósent af eignum og tekjum Eikar á árinu 2015. Bókfært virði fjárfestingaeigna Landsfesta í árslok 2014 var 22,7 milljarðar króna og rekstrartekjur þess á árinu voru um 2,2 milljarðar króna. Snorri segir mjög sérstakt að birta bara fortíðarrekstur eins félagsins þegar framtíðarrekstur og verðmæti félagsins byggist á rekstri tveggja félaga.
Gengi Eikar hefur lækkað frá skráningu. Útboðsgengi í útboði félagsins var 6,8 krónur á hlut en hlutur í Eik selst nú á 6,3 krónur.
Arion banki beggja megin borðsins
Eik var ekki eina fasteignafélagið sem skráð var á markað í apríl á þessu ári. Fasteignarfélagið Reitir var líka skráð þá. Í skýrslu Capacent segir að þáverandi stærsti eigandi Reita og Eika, Arion banki, hafi setið beggja vegna borðsins og ákvarðað útboðsgengi. Bankinn hafi því verið bæði í hlutverki fjárfestis og þjónustuaðila sem þætti vart eðlilegt í nágrannalöndum okkar. Slík vinnubrögð seú til þess fallin að grafa undan trúverðugleika bæði útgefanda og fyrirtækisins sem selt er.
Af fasteignafélögunum þremur sem skráð eru í Kauphöll telur Capacent að Reginn, sem skráð var á markað 2012, sé metið lengst frá sannvirði sínu. Líklega sé verið að refsa félaginu fyrir ónóga upplýsingagjöf um eignir þess.