Leikjaframleiðandinn CCP, sem nú er til húsa við Grandagarð í Reykjavík, flytur í nýbyggingu sem mun rísa á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Í byggingunni verður auk þess aðstaða fyrir fleiri nýsköpunarfyrirtæki. Samningar um flutning á starfsemi CCP verða undirritaðir í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ, í dag. Undir samninginn rita Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, og Hilmar Bragi Janusson, stjórnarformaður Vísindagarða Háskóla Íslands. Tilkynnt var um fyrirhugaða flutninga CCP í dag.
„Það hefur margt breyst frá upphafsárum fyrirtækisins þegar starfsemin rúmaðist í lítilli kjallaraskrifstofu við Klapparstíg. Síðustu tíu ár höfum við verið með meginstarfsemi okkar á Grandasvæðinu, þar sem hefur farið vel um okkur innan um margskonar nýja starfsemi sem þar hefur sprottið upp á síðustu árum,“ segir Hilmar Veigar í samtali við mbl.is í dag. Hann segir að tími hafi verið kominn á nýja staðsetningu fyrir starfsemina samhliða framtíðaráformum fyrirtækisins.
Tölvuleikjafyrirtækið CCP tapaði alls 65,7 milljónum dala, um 8,7 milljörðum króna, á síðasta ári. Það tap bætist við hallarekstur fyrirtækisins á árinu 2013, þegar það tapaði 21,3 milljónum dala, eða 2,4 milljörðum króna. Helsta ástæða tapsins er gjaldfærður rannsóknar- og þróunarkostnaður. Hann jókst mikið bæði síðustu ár og var til að mynda 11,4 milljarðar króna í fyrra. Árið áður var gjaldfært um 5,5 milljarða króna vegna hans. Kostnaðurinn er bæði tilkomin vegna áframhaldandi þróunar á Eve Online, en einnig vegna kostnaðar sem lagt var út í vegna fyrstu persónuskotleiksins DUST 514 og World of Darkness, sem var blásinn af í fyrra.
CCP vinnur jafnframt að tölvuleiknum EVE:Valkyrie. Leikurinn verður gefinn út bæði fyrir PC tölvur og Playstation 4 og notast við sýndarveruleikabúnað, Oculus Rift og Project Morpheus.