Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP hætti í dag að greiða starfsmönnum sínum á Íslandi laun í evrum eins og verið hefur undanfarin ár. Laun sem starfsfólk fékk í dag voru í krónum.
CCP staðfestir þetta í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið en svaraði fyrirspurninni ekki að öðru leyti vegna þess að fyrirtækið ræði ekki um launamál starfsmanna í fjölmiðlum.
Það vakti athygli þegar CCP ákvað að bjóða starfsfólki upp á laun í evrum, en starfsmönnum fyrirtækisins á Íslandi bauðst frá og með 1. janúar 2009 að fá greidd laun í evrum. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu þann 30. desember 2008 og þá sagði Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri fyrirtækisins, að tvennt lægi að baki þeirri ákvörðun. „Annars vegar erum við með fjölda erlendra starfsmanna hér á landi og sumir þeirra eru með skuldbindingar í öðrum gjaldmiðlum.“ Óvissan sem þá ríkti í gengismálum hefði verið þessu fólki erfið. „Hins vegar hafa sveiflur á gengi krónunnar komið illa við fyrirtækið, því erfitt er að gera áætlanir fram í tímann þegar gengið sveiflast öfganna á milli á skömmum tíma. Nær allar okkar tekjur eru í erlendri mynt og takist okkur að auka hlutfall erlendra gjaldmiðla í útgjöldum náum við meira jafnvægi í rekstrarreikningi okkar.“
Í umfjöllun í Fréttablaðinu í apríl 2009 sagði Hilmar Veigar svo að fyrirtækið væri með marga sérfræðinga í vinnu, bæði innlenda og erlenda. „Við lítum svo á að það sé ekki réttlætanlegt annað en borga þeim laun sem eru samkeppnishæf á alþjóðavísu.“
Segja stærsta framtakssjóð heimsins vilja eignast CCP
Greint er frá því í Viðskiptablaðinu í dag að stærsti framtakssjóður í heimi, New Enterprise Associates, og Novator, félag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hafi verið á höttunum eftir hlutabréfum í fyrirtækinu. Viðskiptablaðið segir að boðið hafi verið allt að 2.500 krónur á hlut. NP ehf, sem er í eigu Novator, á nú um 43% hlut í fyrirtækinu, en átti 29,74% um síðustu áramót. Fyrirtækið er því orðið stærsti einstaki hluthafinn í CCP.
New Enterprise Associates er bandarískur sjóður sem á eignir sem eru metnar á átján milljarða Bandaríkjadala. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að sjóðurinn hafi nú þegar eignast 10% eignarhlut í fyrirtækinu.
CCP tapaði meira en 87 milljónum dala síðustu tvö ár.