Verslun bandaríska smásölurisans Costco, sem er þriðja stærsta smásölukeðja í heimi, mun opna risaverslun í Kauptúni í Garðabæ á fyrri hluta ársins 2016. Costco mun kaupa stóran hluta hússins Kauptún 3 af félagi í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona. Byggt verður við húsið. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Samningur um kaupin er frágengin en ekki undirritaður og samkvæmt Gunnari Einarssyni, bæjarstóra Garðabæjar, eru nokkrar vikur í það.
RÚV greindi frá því í um miðjan desember síðastliðinn að Costco ætlaði að opna verslun á þessum stað fyrir jólin 2014 og Gunnar Einarsson, staðfesti það í viðtali við fréttastofu RÚV. Costco skoðaði einnig Korputorg sem mögulega staðsetningu fyrir fyrstu verslun sína á Íslandi.
Vildu undanþágur en fengu ekki
Það spurðist út í fyrravor að Costco hefði áhuga á að reyna fyrir sér á íslenska smásölumarkaðnum. Í verslunum fyrirtækisins er mikið vöruúrval, allt frá matvöru yfir í dekk og bensín. Síðastliðin sumar kannaði fyrirtækið meðal annars hvort það myndi fá að selja áfengi í búðum og hvort það fengi að flytja inn ferskt kjöt og lyf til að selja í verslun sinni, en allt þetta er harðbannað á Íslandi sem stendur. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sló hugmyndirnar þó ekki út af borðinu þegar hún var innt eftir viðbrögðum.
Engar slíkar undanþágur fengust. Það gerði það samt ekki að verkum að Costco hafi hætt við.