Forsvarsmenn verslunarkeðjunnar Costco Wholesale hafa undirritað samning við Garðabæ sem tryggir Costco landsvæði og byggingu í Kauptúni. Í tilkynningu um gerð samningins segir að á svæðinu verði rekin „starfsemi fyrir meðlimi“ og bensínstöð. Umsókn um breytingar á skipulagi svæðisins verði skilað inn eins fljótt og auðið er. Stefnt er að opnun vöruhúss fyrir meðlimi sumarið 2016.
Haft er eftir Steve Pappas, aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra félagsins í Bretlandi og á Íslandi, að félagið muni ráða 160 starfsmenn í fyrstu. „Við erum mjög spennt fyrir þessu frábæra tækifæri og getum ekki beðið eftir að opna á Íslandi. Þetta er góður markaður fyrir okkur. Við hlökkum til að vinna að því með Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og bæjaryfirvöldum Garðabæjar að gera þetta verkefni að veruleika eins fljótt og auðið er til að geta svo opnað verslunina sumarið 2016. Við munum ráða 160 starfsmenn til starfa í fyrstu en þeir verða svo orðnir að minnsta kosti 250 eftir þrjú ár, þegar reksturinn er kominn betur af stað. Við munum líklega hefja ráðningar starfsmanna í byrjun árs 2016.“
Alþjóðleg keðja með eigið vörumerki
Í tilkynningunni er fyrirkomulag og rekstur Costco verslana rakin. Keðjan er alþjóðleg, vöruhús hennar eru 679 talsins og meðlimir eru um 71 milljón. Costco er aðeins opið meðlimum, það eru einstaklingar, fyrirtæki og það sem kallað er „úrvalsaðild“.
Fullyrt er að í verslunum keðjunnar séu seldar gæðavörur frá þekktum vörumerkjum á lægra verði en fyrirfinnst venjulega hjá öðrum heildsölu- eða smásöluaðilum. „Í vöruhúsum Costco er að finna eitt stærsta og fjölbreyttasta vöruúrval sem völ er á. Dæmi um vöruflokka eru matvörur, sælgæti, heimilistæki, sjónvörp, aukahlutir fyrir bíla, dekk, leikföng, byggingarvörur, íþróttavörur, skartgripir, úr, myndavélar, bækur, húsbúnaður, fatnaður, snyrtivörur, tóbak, húsgögn og ritföng. Costco er þekkt fyrir að selja hágæðavörumerki á verði sem iðulega er lægra en hjá öðrum heildsölu- eða smásöluaðilum, og ábyrgist auk þess 100% ánægju viðskiptavina sinna.
Í Costco er einnig að finna gæðavörur undir vörumerkinu Kirkland Signature, sem er eigið merki verslunarinnar. Fyrirtækið hefur lagt sig fram um að velja vörutegundir á borð við húsbúnað, farangur, dýramat og dýravörur, bleyjur, þurrkur, kaffi, vín og snakk, auk úrvals af fersku kjöti, mjólkurvörum, sælkeravörum, ferskum og frosnum mat og brauðmeti. Costco leggur sig fram við að tryggja að vörur frá Kirkland Signature séu í hæsta gæðaflokki.
Vöruhús Costco í Garðabæ mun einnig bjóða upp á þjónustu á borð við apótek, sölu sjóntækja og sjónmælingu, dekkjasölu og dekkjaverkstæði, bakarí og sælkeraverslun,“ segir í tilkynningunni.