Íslenska fyrirtækið CreditInfo Group hefur undirritað samning um kaup á upplýsingafyrirtækinu Experian Marocco. Fyrirtækið er staðsett í Casablanca í Marokkó og nemur heildarfjárfesting um 500 milljónum króna. Seljandinn er félagið Experian plc., eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sviði fjármálaupplýsinga, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá CreditInfo.
CreditInfo miðlar fjárhags- og viðskiptaupplýsingum og starfrekur meðal annars fjölmiðlavakt og skuldastöðukerfi. Fyrirtækið er með skrifstofur í tuttugu löndum og hefur þeim fjölgað um fimm á þessu ári. Höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík og starfsmenn eru um 300 talsins.
Í tilkynningu frá félaginu segir Kristinn Agnarsson, framkvæmdastjóri nýrra markaða, að markmið félagsins sé að auka umsvifin í Afríku. „Þess vegna er það sérstakt ánægjuefni fyrir félagið að eignast starfsemi í marokkó. Bæði vegna þess markaðar og vegna þess að þaðan er gott að þjónusta Vestur-Afríku. Við erum þegar með skrifstofur í fjórum löndum á því svæði,“ segir hann.
Reynir Grétarsson, forstjóri og stærsti hluthafi í Creditinfo Group, segir þetta passa vel við stefnu fyrirtækisins til lengri tíma: „Þetta er akkúrat sá markaður sem við viljum vera á og hentar okkar starfsemi. Við viljum sérhæfa okkur og helst þannig að keppinautarnir vilji ekki vera á sama stað og við. Við stefnum enn á að vera í 50 löndum árið 2020 og erum á áætlun,“ segir Reynir.