Daði Kristjánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá H.F. Verðbréfum. Daði hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2010 og sem forstöðumaður markaðsviðskipta frá því í september 2012. Hann tekur við stöðunni um áramótin af Andra Guðmundssyni sem mun starfa áfram sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar, en hann sinnti þeirri stöðu áður samhliða starfi framkvæmdastjóra. Andri hyggst flytja með fjölskyldu sína til Svíþjóðar á nýju ári.
„Ég er afskaplega spenntur að takast á við nýtt hlutverk innan H.F. Verðbréfa og tek við góðu búi af Andra. Ég hef starfað hjá fyrirtækinu í að verða 5 ár og þekki starfsemina því vel en það verður gott að hafa Andra mér til halds og trausts á meðan ég er að koma mér inn í starf framkvæmdastjóra,“ segir Daði í tilkynningu.
Daði er með B.Sc. gráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði frá sama skóla. Þá hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.