Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir á Facebook-síðu sinni að hann geti ekki orða bundist, vegna gagnrýni sem kemur fram hjá Júlíusi Vífli Ingvarssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, á störf Jóns Gnarr, í lokaverkefni Jóns Júlíusar Karlssonar í MPA námi við Háskóla Íslands. Nútíminn fjallaði um lokaverkefnið í dag, en í því leitaðist Jón Júlíus við að svara því hvort Jón Gnarr hefði í reynd verið borgarstjóri Reykjavíkur.
Í niðurstöðu lokaverkefnisins kemur fram að Jón Gnarr hafi mótað embættið með sínum hætti og fært völd til embættismanna og aukið völd þeirra, og sannarlega verið borgarstjóri, samkvæmt endursögn Nútímans.
Júlíus Vífill segir að Jón hafi verið veikur stjórnmálaleiðtogi. „Ef ég á að líta á störf hans í heild sinni þá náttúrulega skorti þann þátt þessa embættis sem að lítur að stjórn borgarinnar. […] Jón var veikur stjórnmálaleiðtogi, gerði ekki skýrar línur sem rekstrarlegur leiðtogi þar sem embættismenn tóku yfir starfsskyldur hans. Það er enginn sem tekur á rekstrinum á þessum tíma. … Slík stjórnun, eins og var á síðasta kjörtímabili, gengur auðvitað ekki upp.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir á Facebook síðu sinni að þessi gagnrýni Júlíusar komi úr hörðustu átt, og að hann kunni ekki að skammast sín. Hann segir Jón hafa verið afburðagóðan borgarstjóra.
„Get ekki orða bundist. Eftir kjörtímabil þar sem fyrri meirihluti þurfti að taka á honum stóra sínum við að reisa Orkuveitu Reykjavíkur og fjármál borgarinnar úr rústum, þá leyfir Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjáfltæðisflokksins sér að velja þáverandi borgarstjóra, Jón Gnarr, þessa einkunn."Þarna var hann kominn á stað sem að krafðist einbeitingar og setja sig inn í störf sem snérust ekki beint um hann sjálfan heldur um hag annarra. Ég held að það hafi reynst honum of flókið að gera það, segir hann." Þetta heitir að kunna ekki að skammast sín. Jón Gnarr er einn magnaðist maður sem ég hef kynnst, með skarpara innsæi og meiri gáfur en fólk flest Hann er frábær manneskja og var afburðagóður borgarstjóri.“