Danska verktakafyrirtækið MT Højgaard skrifaði í dag undir samning við Silicor Materials um að byggja 121 þúsund fermetra stóra sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Samningurinn er metinn á 1,5 milljarða danskra króna, um 30 milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu danska fyrirtækisins.
Silicor Materials tilkynntu um miðjan júli 2014 að fyrirtækið hefði valið að byggja verksmiðjuna á Íslandi. Í tilkynningu vegna þessa kom fram að hinn íslenski Arion banki myndi leiða fjármögnun verkefnisins.
Fulltrúar Silicor Materials undirrituðu svo fjárfestingasamning við íslenska ríkið vegna verkefnisins í september 2014. Í apríl síðastliðinn var loks skrifað undir samninga um lóð, lóðaleigu og afnot af höfn við Faxaflóahafnir. Nú hefur verið gengið frá samkomulagi við verktaka um að byggja verksmiðjuna sem áætlað er að verði fullbyggð árið 2018.
Áætluð ársframleiðsla verksmiðjunar er um 19 þúsund tonn og áætluð orkuþörf er um 60 megavött.
Bygging verksmiðju Silicor Materials er fjarri því óumdeild. Athafnamaðurinn Skúli Mogensen, sem á meðal annars flugfélagið Wow air, skrifaði til að mynda grein í Kjarnann þann 20. maí þar sem hann gagnrýndi áformin harðlega. Skúli, sem ætlaði sér að byggja vistvænt hótel í Hvalfirði, hefur sagt að hann muni ekki láta verða af því ef sólarkísilverksmiðjan rís.