Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hjólar fast í RÚV í Reykjavíkurbréfi sunnudagsútgáfu blaðsins og ásakar ríkisútvarpið um mikinn pólitískan halla til vinstri. Þar segir Davíð að breska ríkisútvarpið BBC hafi lengi vel verið talið „vel hallandi á vinstri kantinn og sú stofnun hefur sýn þá dygð að neita því aldrei beint. Enda hallinn þar í rauninni lítill, þótt eftir honum sé tekið. Hann er þannig miklu minni en hallinn á skakkaturninum í Písa. Og BBC er eins og hvítskúraður ófullur engill hjá skakkaturninum í Efstaleiti.“
BBC er eins og hvítskúraður ófullur engill hjá skakkaturninum í Efstaleiti.
Reykjavíkurbréfið er allt helgað RÚV, lofun á stöðu þess í fortíð og last á það sem ríkisútvarpið er í dag. Davíð segir að þegar Ríkisútvarpið var hálfpartinn hlutafélagavætt fyrir nokkrum árum, og útvarpsráð, „eina lýðræðislega tengingin við almenning, hvarf og stjórn var skipuð, var því spáð, að þess háttar stjórn myndi fljótlega breytast í launaðan þrýstihóp á ríkissjóð fyrir hönd fyrirtækisins. Sú spá hefur því miður ræst miklu fyrr en nokkur spámanna hefði sjálfur trúað.
Nú er enginn munur orðinn á stjórn „RÚV“ og hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, sem gamlir starfsmenn, ættingjar og vinir standa helst að.“
Sovéskt yfirbragð
Davíð gerir traust til fjölmiðla einnig að umtalsefni, en MMR birti nýverið árlega könnun sína á því. Hann gerir lítið úr aðgerðinni sem beitt er við könnunina þar sem hún taki ekki tillit til fjölda þess sem raunverulega sér þá fjölmiðla og geti þar af leiðandi myndað sér skoðun á því hvort þeir treysti fjölmiðlinum eða ekki. Mest traust væri á Ríkisútvarpinu, um 70 prósent, þótt það hafi minnkað um sex prósent. Það sé líka „eini fjölmiðillinn, af þeim sem þarna komu til álita, sem býr við sérstök lög. Í inngangi þeirra er tekið fram að stofnunin starfi í þjóðarþágu! Þetta er vissulega dálítið sovésk yfirskrift og ber vott um óörugga samvisku. Svo hátimbruðum yfirskriftum er ekki splæst á aðrar ríkisstofnanir. Landspítalinn starfar ekki í þjóðarþágu og kannski er umhyggja yfirvalda því skiljanlega minni fyrir honum en „RÚV“. Því vekur athygli að traustið á Ríkisútvarpinu er þó ekki meira en þetta. [...]Það leyndist engum að fréttastofa »RÚV« var glaðbeitt þegar hún sagði frá 70% mældu trausti á „RÚV“ og tók það augljóslega til sín og vildi að hlustendur gerðu það líka.
En þá ber að hafa í huga að samkvæmt nýbirtum könnunum horfa nú aðeins rúm 18 prósent landsmanna (12-80 ára) á fréttir Ríkisútvarpsins. Örlítið fleiri horfa á fréttir Stöðvar 2
En þá ber að hafa í huga að samkvæmt nýbirtum könnunum horfa nú aðeins rúm 18 prósent landsmanna (12-80 ára) á fréttir Ríkisútvarpsins. Örlítið fleiri horfa á fréttir Stöðvar 2, sem er eftirtektarvert. Ljóst er að Stöð 2 hefur átt í miklum fjárhagserfiðleikum og sífellt berast fréttir af nýjum uppsögnum hjá 365.
Mikið hefur verið gert úr uppsögnum hjá »RÚV« en samt virðist aldrei neitt sparast við þessar uppsagnir og starfsmönnum fækkar ekki. Sem er auðvitað heilmikill galdur.“