Eins og kunnugt er hlutu fyrrverandi stjórnendur og eigandi Kaupþings fangelsisdóma í Hæstarétti á fimmtudaginn, fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða. Mennirnir voru ýmist dæmdir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í tengslum við sýndarkaup sjeiksins Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar á hlutabréfum í Kaupþingi í aðdraganda falls bankans.
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, rifjaði upp innreið sjeiksins inn í íslenskt efnahagslíf í aðdraganda bankahrunsins, í eftirminnilegri ræðu sem hann hélt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2009. Þar fór hann meðal annars hörðum orðum um Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands.
„Það er hárrétt mat hjá Geir Haarde, að Samfylkingin fór á taugum við fyrstu kippi hinna efnahagslegu jarðhræringa á Íslandi. Össur Skarphéðinsson virtist telja að öllu yrði borgið á Íslandi með því að birtar yrðu nægilega margar litmyndir af honum og Ólafi Ragnari með hinum mikla sjeik frá Katar,“ sagði Davíð í ræðu sinni á landsfundinum og uppskar mikil hlátrasköll og lófatak í kjölfarið.
Ólafur Ragnar Grímsson, Amir Sheikh Hamad Bin Khalifa Al Thani, emírinn af Katar og Össur Skarphéðinsson.
„En svo þegar á daginn kom að sjeikinn þeirra Ólafs reyndist milk-shake með óbragði, þá fór allur vindur úr köppunum og næstu dagar fóru í að fækka með hraði litmyndum á heimasíðum hér og hvar og minnti helst á óðagotið í prentsmiðjunni forðum þegar rifnar voru út myndir og formálar og frásagnir í lofgjarðar rullum um útrásarforsetann sem hinir nýföllnu bankar höfðu kostað útgáfuna á.“
Ofangreind ummæli Davíðs Oddssonar má finna í klippunni hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=STmmErEh5AI