Davíð Oddsson segir að óaldalýður hafi ráðist að þinghúsinu og öðrum opinberum byggingum í þeim mótmælum sem áttu sér stað á árunum eftir bankahrun. Þjóðin hefði verið hætt komin. Hann segir einnig að ef flugvél full af liðsmönnum Ríkis íslam, sem í stað tannbursta og svitalyktaeyðis væru allir með vélbyssur, myndi villast hingað til lands þá ættu slíkir farþegar auðveldara með að taka yfir Ísland en Jörundur hundadagakonungur forðum daga.
Þetta kemur fram í Reykjavíkurbréfi sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.
Vélbyssur, svitalyktareyðir og tannburstar
Bréfritarinn, sem að þessu sinni er augljóslega Davíð Oddsson, annar ritstjóri Morgunblaðsins, hefur bréfið á því að fara yfir þær ógnir sem stafa að heimsbyggðinni um þessar mundir og staldrar sérstaklega við Ríki íslam.
Hann setur þær aðstæður síðan fljótt í samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað á Íslandi um byssueign lögreglunnar og landhelgisgæslunnar og gagnrýnir harðlega þekkingarleysi þeirra sem hæst hafa látið í þeirri umræðu. Í bréfinu segir: „Það er freistandi að að trúa því, að litla Ísland geti eitt fárra fullvalda ríkja sloppið ódýrt frá veruleika sem aðrar þjóðir verða að horfast í augu við. Setjum upp það dæmi, að hingað stefndi flugvél svipuð þeirri sem villtist á leið til Birmingham. Engin leið er að koma í veg fyrir að sú vél lendi. Þá kæmi í ljós að hvert sæti hennar væri skipað góðborgurum frá Ríki íslams. Í stað tannbursta og svitalyktareyðis væru þeir allir með vélbyssur, mun nútímalegri en þær sem hingað bárust frá norska hjálpræðishernum. Væri trú þeirra rétt, sem hæst buldi í, bæði í bloggi og blöðum, þá ættu fyrrnefndir farþegar hægari leik á Íslandi nú en Jörundur hundadagakóngur fyrir rúmum 200 árum.“
Óaldarlýður og þjóðin hætt komin
Í kjölfarið rifjar Davíð upp Búsáhaldarbyltinguna og skýrslu sem Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn, skrifaði um hana. Skýrslan var send á fjölmiðla í síðustu viku og hefur verið mikið gagnrýnd, sérstaklega vegna þess að í henni eru mikið af persónuupplýsingum um einstaklinga sem tóku þátt í ýmsum mótmælum á árunum eftir hrun. Hefur lögreglan verið ásökum um að stunda persónunjósnir auk þess sem hún sendi fyrir mistök út eintök af skýrslunni þar sem hægt var að sjá nöfn einstaklinga sem fjallað er um í skýrslunni sem áttu að vera yfirstrikuð og ógreinanleg.
Það eru aðeins 6 ár síðan óaldarlýður gerði árásir á íslenska þinghúsið og fleiri opinberar byggingar.
Davíð segir að óaldalýður hafi ráðist á opinberar byggingar í þessum mótmælum og að þjóðin hafi verið hætt komin. „Það eru aðeins 6 ár síðan óaldarlýður gerði árásir á íslenska þinghúsið og fleiri opinberar byggingar. Hér hefur það tíðkast að heimila mótmælendum að fara nærri mikilvægum byggingum, eins og þinghúsinu, sem hvergi er leyft annars staðar. Hafa jafnvel lögfræðingar, sem vilja láta taka sig alvarlega, sagt það hluta af réttinum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri að fólk fái að vera í skotfæri við menn og mannvirki. Það gerði fyrrnefndur hópur í skjóli almennra mótmæla, sem ríkulegri ástæður voru til að færu fram, en oftast endranær í sögu landsins. En þar sem óaldarlýðurinn, sem kveikti elda, kastaði eggjum, grjóti og saur í alþingishúsið, gerði það í illa fengnu skjóli hinna almennu mótmæla, átti fámenn lögreglan óhægt um vik. Álagið á hana var ógurlegt og framganga hennar og stilling ofurmannleg.
Fjölmörg mótmæli voru við Alþingishúsið og aðrar opinberar byggingar á árunum 2008 til 2011. Skýrslu um mótmælin, sem lögreglan lét vinna og var birt opinberlega í síðustu viku, hefur vakið hörð viðbrögð.
Ekki fór á milli mála að lýðurinn, margir í þeim hópi grímuklæddir, reyndi að brjóta sér leið inn í þinghúsið, Seðlabankann, lögreglustöðina og reyndu að brjóta rúður bifreiðar forsætisráðherrans. Sums staðar var 5. herdeild til staðar til að auðvelda árásarmönnunum verkið. Á því leikur ekki lengur neinn minnsti vafi. Það mátti því ekki miklu muna þarna. Hvað hefði þessi tryllti lýður gert hefði hann náð markmiði sínu að brjótast inn í þinghúsið? Fáir vilja kannski hugsa þá spurningu til enda. En er virkilega hægt eða leyfilegt að forðast slíka úttekt og það mat? Því verður hver og einn að svara fyrir sig.
Ekki fór á milli mála að lýðurinn, margir í þeim hópi grímuklæddir, reyndi að brjóta sér leið inn í þinghúsið, Seðlabankann, lögreglustöðina og reyndu að brjóta rúður bifreiðar forsætisráðherrans. Sums staðar var 5. herdeild til staðar til að auðvelda árásarmönnunum verkið.
Umræður síðustu daga sýna að þeir eru sennilega til, sem helst vildu banna að gerð væri úttekt á þessum alvarlegum atburðum og krefjast leyndarhjúps yfir þá sem verst gengu fram eða toguðu í spotta á bak við tjöldin.
Þjóðin var þá mjög hætt komin.“