Þegar bankarnir voru einkavæddir í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar voru lög ekki sniðgengin. Og mýtan um að þeir hafi verið seldir einkavinum stenst ekki skoðun. Þegar Arion banki og Íslandsbanki voru "hins vegar nánast gefnir erlendum kröfuhöfum var það gert án umræðu og án lagaheimildar, svo ótrúlega sem það hljómar." Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í Reykjavikurbréfi blaðsins í dag.
Eigendurnir alls ekki vinir hans
Davíð fer yfir það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sat við völd á síðasta kjörtímabili, hafi ítrekað haft orð á því að það þyrfti að láta rannsaka einkavæðingu bankanna skömmu eftir síðustu aldarmót, þegar Landsbankinn var seldur til Björgólfsfeðga og Búnaðarbankinn til S-hópsins svokallaða. Í Reykjavíkurbréfinu segir Davíð: "Sú einkavæðing hefur gjarnan verið í sniðugheitum kölluð "einkavinavæðing", sem er óneitanlega dálítið snjallt, enda kom hinn orðhagi rithöfundur og raunar fjöllistamaður, Ingólfur Margeirsson, fyrstur fram með það orð. Þeir sem keyptu eða komust yfir þrjá stærstu íslensku bankanna voru auðvitað einkavinir þáverandi forsætisráðherra.
Forstjóri banka Kaupþings í London segir frá því í bók, að þegar æðstu yfirmenn Kaupþings fengu þær fréttir að sá forsætisráðherra væri loks að hætta þá hafi þeir slegið upp gleðskap og dregið tappa úr eðalvínum. Einkavinur forsætisráðherrans númer 2, Jón Ásgeir Jóhannesson, réð yfir Glitni og skuldaði stjarnfræðilegar upphæðir í íslensku bankakerfi og eru ekki til dæmi um slíkar skuldir eins manns í nokkru bankakerfi í veröldinni. Einkavinur númer 3 var Björgólfur Guðmundsson, sem fjármagnaði Albert Guðmundsson í baráttu hans gegn Davíð Oddssyni í prófkjöri um borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins vegna kosninga 1982.
Eini einkavinurinn með réttu var Kjartan Gunnarsson, sem mun hafa átt nærri 1% í Landsbankanum áður en yfir lauk. Þessar staðreyndir breyta raunar engu um að orðssmíðin er prýðileg og þessar staðreyndir breyta heldur engu um dellu fullyrðingar. Hinir óforbetranlegu halda sínu striki hversu skakkt sem það er."
Hannes hrekur mýtur um Davíð
Það er ekki bara einkavæðing bankanna sem Davíð sver af sér í þessu Reykjavíkurbréfi, enda er fyrirsögn þess "Sögusmettum verður bumbult af sögunni þegar hún birtir lokaorðið". Hann minnist líka á að fræðimenn hafi nýverið upplýst, á ráðstefnu sem haldin var í Háskóla Íslands, að ekki fyndist fótur fyrir því að ummæli hans í Kastljósi um að íslenska þjóðin ætti ekki að axla skuldir óreiðumanna væri ástæða þess að Bretar hefðu beitt hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Einn þeirra fræðimanna sem þessu hélt fram var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og einn helsti stuðningsmaður Davíð Oddssonar undanfarna áratugi.
Einn þeirra fræðimanna sem þessu hélt fram var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og einn helsti stuðningsmaður Davíð Oddssonar undanfarna áratugi.
Önnur mýta sem Davíð segir að fræðimennirnir hafi hrakið eitt skipti fyrir öll á ráðstefnunni var að sá íslenski banki sem féll fyrstur og dró hina með sér í fallinu, Glitnir, "var ekki einka(vina)væddur á ríkisstjórnarárunum frá 1991-2005, eins og ætla mætti af afskræmdri umræðu. Þá einkavæðingu, sem snerti tilveru þess banka, framkvæmdi ríkisstjórnin sem sat árin 1987-1991.Í þeirri stjórn voru tveir ráðherrar sem betur urðu kunnir síðar: Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon."
Ekkert að fyrri einkavæðingunni, en sú síðari hræðileg
Davíð segir síðan að Jóhanna Sigurðardóttir hafi sífellt hótað að láta rannsaka einkavæðingu bankanna í stjórnartíð sinni, en aldrei hafi orðið að því. "Kannski má rekja það athafnaleysi til þess, að Ríkisendurskoðun hafði þegar, að sérstakri ósk, látið rannsaka þá einka(vina)væðingu. Auðvitað gerði stofnunin þá sínar athugasemdir um einstök atriði, eins og jafnan gerist, en engin þeirra var í átt til þess sem Jóhanna dylgjaði um, svo ekki sé minnst á sögusmettur á vefnum. Lög höfðu ekki verið sniðgengin. En þegar tveir íslenskir bankar voru hins vegar nánast gefnir erlendum kröfuhöfum var það gert án umræðu og án lagaheimildar, svo ótrúlega sem það hljómar.
En þegar tveir íslenskir bankar voru hins vegar nánast gefnir erlendum kröfuhöfum var það gert án umræðu og án lagaheimildar, svo ótrúlega sem það hljómar.
Þá héldu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon um stýri þjóðarskútunnar. Þau gerðu það þannig, að þjóðarskútan velktist um eins og í óveðri, þótt hún væri bundin við bryggju nánast allt kjörtímabilið, og fékk aldrei að sækja björg í bú. Íslenskum kjósendum var nóg boðið. Þeir tóku sig því saman og settu strandkapteinana tvo í land, með slíkum vitnisburði, að ekki er líklegt að nokkur, sem hann les, ráði þá í sambærilega vinnu aftur. Það er þó huggunarríkt."