Þórir Guðmundsson, deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík, segir Íslendinga auðveldlega geta tekið á móti miklu fleira flóttafólki en áætlað er að taka við. Áform ríkisstjórnarinnar miða við að Íslendingar taki við 50 flóttamönnum í ár og á næsta ári. Þórir segir það ekki vera hlutverk Rauða krossins að koma með tölu um hversu mörgum flóttamönnum við getum tekið við heldur stjórnvalda. Hann segist þó hiklaust geta sagt að Íslendingar ættu að geta tekið á móti hundruðum næstu tvö árin. „Ekki eitt eða tvö hundruð, heldur miklu fleirum. Það er tala sem við ráðum mjög vel við.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Mikill þrýstingur hefur skapast á íslensk stjórnvöld um að endurskoða þann fjölda flóttamanna sem til stendur að taka á móti í ljósi þess gríðarlega vanda sem skapast hefur vegna aukins straums þeirra til Evrópu undanfarin misseri. Myndir af fólki sem hefur hefur ýmist látist eða lifað af þá þolraun að flýja ástand í heimalandi sínu í von um betra líf. Myndir af flóttafólkinu hafa farið víða á samfélagsmiðlum og vakið sterk viðbrögð. Rúmlega 8.300 manns hafa líkað við Facebook-síðu þar sem skorað er á stjórnvöld að taka á móti 5000 flóttamönnum. Þá var sett upp Facebook-síða sem heitir "Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar". Þar hafa fjölmagir Íslendingar boðið fram aðstoð sína gagnvart flóttamönnum, meðal annars með því að bjóða fram húsnæði undir flóttamennina.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í gær að ríkisstjórnin væri að fara yfir málið. Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði hún umfang aðstoðar ráðast af því hversu mikla aðstoð almennir borgarar væru tilbúnir að veita flóttamönnum og ríkisvaldinu.