Erna Bjarnadóttir tekur í dag sæti sem varaþingmaður fyrir Birgi Þórarinsson, í fyrsta sinn á kjörtímabilinu. Það heyrir til nokkurra tíðinda, enda breytist við þetta fjöldi sitjandi þingmanna í Miðflokki og Sjálfstæðisflokki.
Miðflokksmönnum á þingi fjölgar úr tveimur í þrjá og þingmönnum Sjálfstæðisflokks fækkar úr 17 í 16.
Birgir var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn í Suðurkjördæmi í kosningunum í haust en ákvað skömmu síðar að segja skilið við flokkinn. Erna var í 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi og var slagorð hennar, „Ding, ding, ding, Erna á þing“, eitt af þeim eftirminnilegri í kosningabaráttu haustsins.
Birgir sagði við Morgunblaðið er hann tilkynnti um vistaskipti sín að Erna styddi ákvörðun hans. Óvissa var þó uppi um hvort Erna myndi fylgja Birgi yfir í þingflokk Sjálfstæðisflokksins, eða hvort varaþingmaðurinn myndi áfram verða í Miðflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn bauð Ernu velkomna í flokkinn í tilkynningu um vistaskipti Birgis, en ekkert fékkst staðfest frá Ernu sjálfri.
Erna greindi sjálf frá því í viðtali á Bylgjunni þann 12. október að hún ætlaði sér ekki að skipta um flokk. „Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna, sem lýsti því yfir í samtalinu að hún væri ekki ósátt við þá ákvörðun Birgis að skipta um þingflokk svo skömmu eftir kosningar.
„Hún tjáði mér það að hún ætlaði að koma með mér yfir. Hún hefur greinilega skipt um skoðun og ég held að það sé partur af þeirri hörðu umræðu sem hefur verið í samfélaginu og haft mikil áhrif á hana.“ sagði Birgir í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 í kjölfarið.
Í janúarmánuði gagnrýndi Erna Birgi fyrir að kalla sig ekki inn sem varamann á meðan hann tók þátt í fundi Evrópuráðsþingsins og sagðist hún á Facebook ekki hafa heyrt frá honum „hósta né stunu“ þrátt fyrir að hafa, ásamt fleirum, hlaupið úr sér „lifur og lungu til að maðurinn kæmist á þing“.
Á vef Alþingis má í dag sjá á lista yfir sitjandi aðal- og varaþingmenn að Erna situr á þingi fyrir Miðflokkinn, en ekki Sjálfstæðisflokkinn.
Birgir hafði samband um helgina
Erna Bjarnadóttir segir í samtali við Kjarnann að Birgir hafi haft samband við hana um helgina og sagt henni að hann hygðist kalla hana inn sem varaþingmann, en Birgir er erlendis þessa vikuna að störfum fyrir þingið.
„Ég átti ekki von á þessu,“ segir Erna og bætir við að það hafi „ekki verið venjan að kalla inn varaþingmann þegar menn færa sig á milli flokka“.
Hún segir að samskipti hennar og Birgis hafi verið vingjarnleg og að henni þyki það drengilegt af Birgi að hafa kallað hana inn sem varaþingmann sinn.
Nefndi Klausturmálið sem rótina að vistaskiptunum
Birgir greindi frá vistaskiptum sínum yfir í Sjálfstæðisflokkinn í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið, en þar sagði að traust milli hans og forystu Miðflokksins væri brostið.
„Þessi staða rekur rætur sínar allt aftur til hins svokallaða Klausturmáls. Eins og kunnugt er gagnrýndi ég málið opinberlega og viðbrögð þeirra sem í hlut áttu. Ég gat þess jafnframt að ég óskaði engum þess að vera þolandi eða gerandi í máli sem skók þjóðina dögum saman og enn er minnst á í fjölmiðlum. Að baki standa fjölskyldur sem hafa átt erfitt vegna málsins. Ég gagnrýndi samflokksmenn mína sem í hlut áttu vegna þess að heilindi við eigin samvisku og sú ábyrgð að breyta rétt í þjónustu við kjósendur er fyrsta skylda þingmanna. Eftir gagnrýni mína á Klausturmálið naut ég aldrei fulls trausts innan hópsins og um tíma var beinlínis litið svo á að ég væri vandamálið,“ skrifaði Birgir í grein sinni.
Birgir sagði að við uppröðun á framboðslista Miðflokksins fyrr á þessu ári hefði hafist skipulögð aðför gegn sér af hálfu áhrifafólks innan flokksins. Mikið hafi verið á sig lagt, liðsauki kallaður til, nýjar reglur settar og ýmsum brögðum beitt til að koma í veg fyrir að hann yrði oddviti í Suðurkjördæmi.
„Miðflokkurinn beið afhroð í kosningunum og er í erfiðri stöðu. Margt fór úrskeiðis í kosningabaráttunni og í aðdraganda hennar. Mikið uppbyggingarstarf bíður forystunnar og flokksmanna, en endurreisnin mun aldrei takast nema full samstaða og traust ríki milli manna. Ljóst má vera að slíkt traust ríkir ekki í minn garð eins og ég hef rakið. Það er fullreynt. Einnig skal það sagt að flokksforystan hefur rofið traust mitt til hennar. [...] Minni baráttu ætla ég að halda áfram innan raða Sjálfstæðisflokksins. Þar er góður málefnalegur samhljómur og þar tel ég að kraftar mínir muni nýtast best,“ skrifaði Birgir einnig.
Fréttin hefur verið uppfærð með tilvitnunum í Ernu Bjarnadóttur.